Frumvarp viðskiptaráðherra um gjaldeyrismál fór fljótt í gegnum þingið í gærkvöldi og í nótt og fáir þingmenn tóku til máls í umræðunum um það. Enginn tók til máls í þriðju umræðu um málið.

Frumvarpið var lagt fram um áttaleytið og þurfti að samþykkja afbrigði um dagskrármál svo hægt væri að taka frumvarpið strax á dagskrá þingsins.

Björgvin G. Sigurðsson mælti fyrir frumvarpinu en frumvarp þarf að fara fyrir þrjár umræður á þingi áður en hægt er að taka það í lokaatkvæðagreiðslu.

Fyrsta umræða stóð yfir í um það bil 20 mínútur en fjórir þingmenn tók þátt í henni auk ráðherra.

Lokaatkvæðagreiðslan á fimmta tímanum í nótt

Eftir það fór frumvarpið til umfjöllunar í viðskiptanefnd þingsins og kallaði hún til sín umsagnaraðila frá þremur ráðuneytum, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og hagfræðingana Eddu Rós Karlsdóttur, Ásgeir Jónsson og Ingólf Bender.

Viðskiptanefnd lagði til að frumvarpið yrði samþykkt með fáum breytingum og um þrjú leytið hófst önnur umræða á þingi sem stóð yfir í einn og hálfan tíma.

Enginn tók til máls í þriðju umræðu og þegar klukkan var að nálgast fimm í nótt var frumvarpið afgreitt sem lög frá Alþingi með 32 samhljóða atkvæðum. Þingmenn Framsóknar, Vinstri grænna og Frjálslyndra sátu hjá.