Maí og júní reyndust kaldir mánuðir á Austurlandi og hefur það haft neikvæð áhrif á vatnsbúskap Landsvirkjunar, að því er segir í tilkynningu.

Í lok júní var búist við að staðan gæti breyst hratt, með hækkandi hita færi bráðnun í gang og rennsli ykist. Veðurfar í júlí einkenndist hins vegar af ríkjandi norðanáttum með kuldum og skýjuðu veðri og var meðalhiti á Austurlandi í ár vel undir meðaltali síðustu áratuga.

Þessi niðurstaða fyrir júlímánuð hefur gerbreytt horfum fyrir fyllingu miðlunarlóna Landsvirkjunar eins og þær voru settar fram í upphafi júlí.

Skortur á jökulbráð hefur valdið því að Hálslón hefur aðeins hækkað um tæpa 10 metra í júlí og stendur nú í 593 metrum yfir sjávarmáli. Vantar því yfir 30 metra til að lónið fyllist í haust og eru nú innan við helmingslíkur að það gerist.