Ueno er ungt fyrirtæki en það spratt ekki upp úr engu fyrir fimm árum heldur á sér í raun mun lengri sögu sem er samofin uppruna stofnandans, Haraldar Þorleifssonar, sem er í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins (sjá hér og hér ).

„Þótt Ueno sé aðeins fimm ára er enn styttra síðan ég sjálfur fór að hugsa um það eins og venjulegt fyrirtæki þ.e. sem félag í rekstri með markmið og stefnu og gildi. Þegar ég stofnaði Ueno var til dæmis aldrei markmiðið að vera á þessum stað eftir fimm ár – það hvarflaði ekki að mér. Ég stofnaði það einungis utan um sjálfan mig og þau verkefni sem ég tók að mér í lausamennsku en um árabil hafði ég unnið „freelance“ við hönnun á vefjum, öppum og öðru skjáefni.

Fyrir fimm árum var ég kominn með nokkuð stóra kúnna og var farinn að setja saman hóp af fólki fyrir hvert verkefni þannig að næsta skref var að stofna apparat í kringum reksturinn sem var ekki bara undir mínu nafni. Ég stofnaði Ueno aðallega til þess að skapa faglegri umgjörð utan um vinnuna mína. Draumarnir og markmiðin voru nú ekki stærri en það í upphafi,“ segir Haraldur og brosir.

Haraldur hefur fengist við hönnun í yfir 20 ár en segist þó aðeins nýlega farinn að líta á sig sem hönnuð. Það verður líka seint sagt að leiðin sem hann hefur fetað á starfsferlinum sé hefðbundin og það sama á við í einkalífi og námi. „Í mínum huga var hönnun hluti af tilfallandi verkefnum sem ég tók að mér í lausamennsku. Hentug vinna sem ég gat gripið í til að framfleyta mér á meðan ég var að reyna að komast að því hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Satt best að segja átti ég í mesta basli við að finna út úr því og er eiginlega ekki búinn að komast að því enn. Þetta hefur verið svolítið eins og einhver sagði: Lífið er það sem gerist á meðan maður gerir önnur plön. Allavega var það aldrei meðvituð ákvörðun eða stefna að verða hönnuður,“ segir Haraldur sem kláraði m.a. nám í heimspeki og viðskiptafræði við Háskóla Íslands.

Hann fór í framhaldsnám í hagfræði en korter fyrir útskrift hætti hann snarlega við að skrifa lokaritgerðina.  „Þegar ég stóð frammi fyrir því að ákveða framhaldsnám var hin praktíska rödd í höfðinu á mér ansi hávær og réð að lokum úrslitum um að ég fór í framhaldsnám í hagfræði. Ég var á lokametrunum í því námi þegar ég fór að hugsa málið aðeins lengra og hringdi í nokkra hagfræðinga, sem störfuðu ýmist í bönkunum, Seðlabankanum eða hinu opinbera, til þess að forvitnast um hvernig vinnudagur minn myndi líta út eftir útskrift. Ég hafði ekki hlustað lengi þegar ég fattaði að þetta myndi alls ekki henta mér og væri ekki það sem ég vildi gera,” segir Haraldur og hlær. „Ég hætti við að skrifa lokaritgerðina og byrjaði að hugsa málið upp á nýtt.“

Rugl og Hrun

Árið 2006 fer Haraldur út til New York og fær vinnu hjá litlu vefhönnunarfyrirtæki. „Þetta var mjög flott stofa sem ég hafði fylgst með lengi og hafði það gert frábæra hluti þrátt fyrir að vera frekar lítið fyrirtæki. Ég er hræddur um að ég hafi ekki farið vel með þetta tækifæri heldur var ég allt í einu kominn í hlutverk í klassískri sögu um sveitastrákinn sem kemur í borgina og lendir í vandræðum. Ég byrja að drekka alltof mikið og gera allskonar skandala. Þetta var í fyrsta sinn sem ég bjó í útlöndum og hafði aldrei upplifað annað eins. Frelsið var svo mikið og allt svo skemmtilegt að ég einfaldlega fríkaði út.

Ævintýrið tók enda þegar ég var rekinn úr vinnunni eftir rúmt ár fyrir að vera lélegur starfskraftur sem ég svo sannarlega var. Og þar sem ég dvaldi í landinu á vísa tengdu vinnunni þá þurfti ég að yfirgefa landið um leið og mér var sagt upp. Þegar kem heim tók ekkert betra við heldur fjögurra ára tímabil þar sem ég var eiginlega algerlega týndur.

Ég fékk fyrst starf sem verktaki fyrir CCP og fyrsti dagurinn í vinnunni var dagurinn sem Glitnir banki féll og Geir bað guð um að blessa þjóðina. Þetta var dálítið magnað, allir saman komnir fyrir framan stóran skjá, tár runnu og sumir tóku að öskra á skjáinn þegar Geir mælti þessu fleygu orð. Eftir á að hyggja var þetta ansi táknrænt fyrir þann tíma sem tók við hjá mér sjálfum. Hrun fer ansi nærri lagi að lýsa þessu tímabili. Ég var meira og minna fullur næstu árin. Hélt mér samt einhvern veginn á floti utan frá séð en ég vann aðallega heima og komst þannig upp með að vera dagdrykkjumaður.

Verkefnin héldu þó áfram að streyma og í gegnum vin minn í New York tók ég að mér verkefni fyrir Google. Flest vann ég drukkinn en samt nógu vel til þess að ég fékk alltaf meira og meira að gera. Það er hins vegar meira en að segja það að halda haus þegar óreiðan er komin á þetta stig.

Nýtt upphaf og heimshornafjölskyldan

„Árið 2011 hætti ég að drekka og þá breyttist allt til hins betra – eiginlega um leið. Ári seinna var ég giftur og kominn með barn. Ég fór loksins að taka vinnuna mína og starfsferil alvarlega en eins og ég sagði hafði ég alltaf litið á hönnunina sem eitthvert djók – hliðardjobb sem ég gat gripið í á meðan ég var að leita mér að alvöru starfi. Ég komst til dæmis fljótt að því að þegar ég vann vinnuna edrú skilaði ég miklu betri starfi. Merkileg uppgötvun!“ segir Haraldur sem brosir um leið og hann hristir hausinn.

Stuttu eftir að Haraldur fer að líta aftur lífið allsgáðum augum fer hann jafnframt að fullnýta kosti og tækifærin sem hliðarstarfið hafði upp á bjóða.   „Við fjölskyldan flytjum fyrst út til Tokýó þar sem við vorum búsett í rúmt ár. Næstu ár flytjum við svo úr borg í borg, fyrst Vancuover, Portland, Búenos Aíres, Ríó og Barcelona. Þetta gátum við vegna þess að ég gat unnið hvar sem er. Samhliða þessu flakki fara verkefnin að stækka og fjölga. Áður en vissi af var ég farinn að ráða til mín undirverktaka í hin og þessi störf og þannig byggðist upp hópur í kringum mig af fólki sem mér fannst gott að vinna með. Þetta var grunnurinn sem varð til þess að ég stofnaði Ueno.“