Íslenska ríkið var með þremur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í liðinni viku sýknað af kröfum þriggja félaga um ógildingu á úrskurðum yfirskattanefndar í málum þeirra. Þrætuefni málsins var hvort gjald- og skuldfærsla affalla tiltekinna skuldabréfa, sem félögin gáfu út, hefði verið gerð í rekstrarlegum tilgangi eða til þess eins að ná fram skattahagræði.

Um var að ræða mál 14. júní ehf. og Brimgarða ehf. auk móðurfélagsins Langasjávar ehf. Fyrstnefnda félagið gaf árið 2005 út tíu skuldabréf, hvert um sig 100 milljónir króna að nafnvirði, en Brimgarðar gáfu út átta skuldabréf, hvert að nafnvirði 200 milljónir króna. Öll bréfin voru verðtryggð en vaxtalaus. Í tilfelli 14. júní var fyrsta bréfið á gjalddaga tíu árum eftir útgáfu en síðan gjaldféll eitt bréf á ári til ársins 2024. Hvað Brimgarða varðar þá voru bréfin öll á gjalddaga 20. janúar 2020. Alls fengu Brimgarðar 342 milljónir króna greiddar fyrir bréfin.

Í kjölfar útgáfunnar voru afföll af skuldabréfunum gjaldfærð í ársreikningum félaganna, alls 940 milljónir króna gjaldárin 2008-12 í bókum Brimgarða en um 306 milljónum króna í bókum 14. júní. Árið 2013 felldi Ríkisskattstjóri (RSK) umræddar færslur niður þar sem embættið taldi skilyrði tekjuskattslaganna, um að rót frádráttarins væri rekstrarlegur tilgangur, væri ekki uppfyllt. Það leiddi til hækkunar álagningar á móðurfélagið.

Taldi RSK að félögin hefðu farið úr því að skulda tengdum aðila 342 milljónir króna yfir í að skulda óljósum aðila 1,6 milljarð króna. Umrædd skuldabréfaútgáfa hefði verið þess eðlis að ófyrirséð væri hve mikið þyrfti að greiða á gjalddaga, ávöxtunarkrafa bréfanna, það er í tilfelli Brimgarða, hefði verið 10,75%. Afar ólíklegt væri að ótengdir aðilar hefðu gert slíkan samning sín á milli. Flest benti til þess að stefnt hefði verið að því að nýta afföllinn til frádráttar frá tekjum í skattskilum félaganna. Þann úrskurð staðfesti yfirskattanefnd seinna meir.

Mismunandi leiðir að sama marki

Aðalmeðferð málanna fór upphaflega fram í febrúar en málið var endurflutt í maí, þá fyrir fjölskipuðum héraðsdómi, tveimur embættisdómurum og sérfróðum meðdómanda í formi löggilts endurskoðanda. Sagt var frá efni fyrri aðalmeðferðarinnar á síðum Viðskiptablaðsins í febrúar.

Félögin byggðu á því að skattyfirvöld horfðu alfarið framhjá því að fyrir lægi hver kaupandi bréfanna væri. Það hefði verið Kaupþing í Lúxemborg. Í annan stað þá hefði niðurstaðan, þegar upp er staðið, verið sú sama og ef um „venjulegt“ skuldabréf væri að ræða. Það er þetta væru í raun tvær mismunandi leiðir að sama marki. Fjármunirnir sem fengust að láni hefðu verið nýttir til að kaupa rekstrareignir sem hefðu alla tíð skilað miklum tekjum.

Að mati félaganna höfðu skattyfirvöld gengið út frá því að kaupandi skuldabréfanna hafi verið tengdur aðili án þess að gera grein fyrir því hvaða þýðingu slíkt hefði. Ætla megi að ef um tengdan aðila væri að ræða þá væru afföllin sennilega frádráttarbær þótt mögulega þyrfti að leiðrétta þau til samræmis við markaðskjör.

Að endingu hafi verið litið fram hjá því að „eigið fé [Brimgarða] á þessum tíma hafi verið 233,7 milljónir króna. Í árslok 2017 hafi eignir félagsins verið 11 milljarðar og raunávöxtun 12,4% á tímabilinu frá því skuldabréfin voru gefin út, það er nokkuð hærri en 10,75% ávöxtunarkrafa skuldabréfanna.“ Af þeim sökum fengist það ekki staðist að tilgangur útgáfunnar hafi aðeins verið skattahagræði en ekki að standa undir verðmætasköpun félagsins.

Raunverulegur eigandi lá ekki fyrir

Ríkið byggði á móti á því að þótt kaupandi bréfanna væri tilgreindur Kaupþing í Lúxemborg þá væri samningurinn á íslensku, íslensk lög giltu um það og að deilur um efni þess heyrðu undir íslenska dómstóla. Ekkert benti til þess að bankinn hefði komið að samningu skjalsins.

„Þrátt fyrir að skjölin séu gefin út í Lúxemborg til þarlends banka þá eru skjölin á íslensku og skuldin í íslenskri mynt og ber þar að auki engin einkenni bankastofnunarinnar, hvorki á eyðublaði bankans né á neinn hátt auðkenni þess að bankinn hafi komið að samningu skjalsins,“ sagði í málsvörn ríkisins. Um óvenjulegan gjörning væri að ræða og skattyfirvöldum því rétt að fella afföllin niður.

Í skjölum málsins lá fyrir að félögin höfðu hugsað sér að gefa út og selja svokölluð millilagsskuldabréf. Útgáfa þeirra er fátíð á Íslandi en þekkist erlendis. Að mati yfirvalda fékkst sú skýring tæplega staðist í ljósi hvaða gjaldmiðill var valinn og því næsta vonlaust að selja bréfin á fjármálamarkaði erlendis.

Þá renndi sú staðreynd að kaupandi bréfanna spurðist lítið sem ekkert fyrir um þau, fyrr en að gjalddaga kom, stoðum undir þá skoðun yfirvalda að tengdur aðili hefði verið raunverulegur kaupandi þeirra. Á endanum kom í ljós að handhafi á gjalddaga var Eignarhaldsfélagið Mata ehf., það er í eigu sömu aðila og félögin sem voru til sóknar, en ekkert lá fyrir um framsalsröð til þeirra.

Verulega frábrugðið því sem almennt gerist

Í málinu var vissum formgöllum hjá skattayfirvöldum einnig teflt fram en þeir voru snarlega slegnir út af borðinu af dóminum. Í niðurstöðu dómsins segir að ekki hafi legið fyrir í málinu hver væri raunverulegur eigandi bréfanna en að Banque Havilland færi með vörslu þeirra fyrir hönd viðskiptavinar síns. Með vísan til reglna um bankaleynd fengust frekari upplýsingar um þau ekki.

„Dómurinn telur, eins og atvikum er hér háttað, að ekki verði fallist á að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi verið hinn raunverulegi kaupandi bréfanna heldur hafi hlutverk bankans verið einhverskonar milliganga í viðskiptunum við hinn raunverulega kaupanda þeirra. Hafi [Brimgarðar] þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli skattyfirvalda hvorki upplýst né lagt fram gögn sem varpa ljósi á það hver hafi verið raunverulegur kaupandi bréfanna,“ segir í dóminum. Félagið yrði að bera hallann af því.

Þegar ráðstafanirnar voru metnar heildstætt, það er „söluverð [bréfanna], ófullnægjandi upplýsingar um raunverulegan kaupanda skuldabréfanna og kröfuhafa þeirra, verulega skuldsetningu til langs tíma og umgjörð þeirra og kjör að öðru leyti“, varð ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að kjör þeirra hefðu verið verulega frábrugðin því sem almennt gerist í viðskiptum.

„Þannig hafi ekki verið leitast við að hafa kjör skuldabréfanna sem hagstæðust fyrir félagið svo sem munur á kjörum þessara skuldabréfa og annarra skuldabréfaskulda félagsins við ótengda aðila bera glöggt vitni um,“ segir í dóminum. Af þeim sökum hafi ákvæði tekjuskattslaganna, sem heimilar að víkja til hliðar óvenjulegum gjörningum, átt við í málinu. Niðurstaðan í máli 14. júní var á sama veg og af því leiddi, þar sem sýknað hafði verið í tveimur málum, að sýknað var sjálfkrafa í máli móðurfélagsins Langasjávar.

Ekki í fyrsta sinn

Í framhjáhlaupi er rétt að geta þess að þetta er ekki í fyrsta sinn sem félög í eigu aðilanna sem um ræðir rata í dómasafn vegna óhefðbundinnar skuldabréfaútgáfu. Það gerðist einnig með dómi Hæstaréttar frá febrúar 2006 í máli Sundagarða hf. gegn ríkinu.

Þar var hlutafé félagsins hækkað árið 1993 og lækkað skömmu síðar. Lækkunin var greidd til hluthafa í formi skuldabréfa, vaxta- og afborgunarlausra, til tólf ára. Afföll skuldabréfanna voru síðan færð í rekstrarreikning og auk þess að þau voru skuldfærð í ársreikningum. Sú færsla var felld úr gildi í ljósi þess að hún hefði ekki getað talist til kostnaðar við að afla eða ávaxta rekstrarfé félagsins. Útgreiðslan hefði verið verulega frábrugðin því sem almennt gerist og að tilgangurinn hefði fyrst og fremst verið skattalegt hagræði. Gjaldfærður rekstrarkostnaður var því lækkaður með dómi réttarins og niðurstaða skattyfirvalda staðfest hvað það varðaði.