Þær miklu breytingar sem hafa orðið á íslensku þjóðfélagi og efnahagslífi, ekki síst með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnhagssvæðið og einkavæðingu bankanna, hafa haft mjög jákvæð áhrif og breytt verulega skipan atvinnulífs á Íslandi.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir að þessar breytingar hafi lagt grunninn að hinni svokölluðu íslensku útrás þar sem bankarnir studdu við bakið á útrásarfyrirtækjunum og tóku sjálfir þátt í útrásinni. Þar af leiðandi sé atvinnulífið og fjármálageirinn á Íslandi mun sterkari en áður. Ekki eingöngu vegna þess að fyrirtækin séu orðin stærri og öflugri heldur líka vegna þess að þau séu nú með miklu meiri áhættudreifingu í rekstri sínum.

Þetta tákni að þegar horft sé til starfsemi bankanna og stórra íslenskra fyrirtækja sé það ekki eingöngu íslenska efnahagslífið sem sé undir heldur efnahagslífið í Evrópu og heiminum almennt. Sigurjón bendir á að fyrir utan breytingar sem orðið hafa á allri umgjörð efnahagslífsins á Íslandi sé raunar önnur veigamikil skýring á því hversu vel hafi gengið þótt ekki hafi mikið verið fjallað um þann þátt.

Í Viðskiptablaðinu á morgun er ítarlegt viðtal við Sigurjón þar sem hann talar m.a. um stöðu krónunnar og íslensku bankanna, hugmyndir um sameiningu bankanna og horfur í íslenskum efnahagsmálum.

Frá klukkan 21 í kvöld geta áskrifendur lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .