„Frumvarp um breytingar á gjaldeyrislögum sem samþykkt var á Alþingi í gærkvöld hefur um nokkurt skeið verið tilbúið til framlagningar á þingi. Mikilvægt var talið, að sem stystur tími liði frá lögfestingu frumvarpsins fram að kynningu á afnámsáætlun vegna hafta sem fram fer í dag. Það var ástæða þess að boðað var til þingfundar með óvenjulegum hætti."

Þetta segir í tilkynningu frá forsætisráðuneyti. Tilefnið er frétt í Fréttablaðinu, sem forsætisráðuneytið segir „óstaðfestar." Þá segir jafnframt: „Það er því ekki rétt sem segir í Fréttablaðinu, að óstaðfestar fréttir sem birtust fyrir helgina hafi kallað á sérstök viðbrögð eða skapað aukinn þrýsting til að afgreiða málið í skyndi. Afnám gjaldeyrishafta er í heild sinni óvenjulegt mál og kallar á óhefðbundnar lausnir."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, tekur í sama streng á Facebook síðu sinni. Þar segir hann, um afnám hafta: „Framkvæmdin hófst svo í gærkvöldi, þegar Alþingi samþykkti eins konar undanfarafrumvarp á óvenjulegum tíma. Það leiddi til þess að einhverjir sáu ástæðu til þess að setja á flot vangaveltur sem ekki eru á rökum reistar.