Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) gera athugasemd við ákvæði um skaðleysi stjórnar og starfsmanna félags sem á að taka við verðmætum við greiðslu stöðugleikaframlaga. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands.

Þau verðmæti sem koma til vegna stöðugleikaframlaga eiga að varðveitast hjá Seðlabanka Íslands eða félagi í hans eigu. Stjórn félagsins skal skipuð af Seðlabankanum, en í lögunum kemur fram að ráðherra geti mælt fyrir um skaðleysi stjórnar og starfsmanna félagsins. Í frumvarpinu segir:

„Gert er ráð fyrir að ráðherra og félagið geri með sér sérstakan samning um verkefni og störf félagsins þar sem nánar er kveðið á um umboð þess varðandi umsýslu, fullnustu og sölu þeirra eigna sem fjallað er um. [...] Enn fremur er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til þess að veita loforð í samningnum um að stjórnar- og starfsmönnum félagsins verði haldið skaðlausum af at­höfnum þeirra, enda fylgi þeir því verklagi sem mælt er fyrir um í ákvæðinu og í samningnum.“

Óvenjulegt framsal

Samtökin segja þetta framsal til ráðherra vera óvenjulegt og að slíkt þyrfti að ákveða með lögum. Einnig er bent á að það sé óljóst hvað i þessu felist. Fellur ábyrgð niður, eða færist einkaréttarleg ábyrgð til ráðherra, og þar með til ríkisins. Samtökin telja það einnig vera óvenjulegt að stjórnar- og starfsmenn fjármálafyrirtækja, óháð því hver eigandinn sé, njóti skaðleysis í störfum sínum. Í umsögn samtakanna segir:

„Óvenjulegt er að ráðherra geti mælt fyrir um skaðleysi stjórnar - og starfsmanna fyrirtækisins eins og kemur fram í frumvarpinu. Slíkt þyrfti að ákveða með lögum. Álitamál er einnig hvað í þessu felst. Þýðir þetta að einkaréttarleg ábyrgð á starfi stjórnar- og starfsmanna færist til ráðherra og þar með ríkisins. Þá er einnig óvenjulegt að stjórnar- og starfsmenn fjármálafyrirtækja, hvort sem þau eru í eigu ríkis eða einkaaðila, njóti skaðleysis af störfum sínu.“