Frá árinu 2010 hefur orðið mikil hækkun á verði bréfa í skráðum félögum þegar á heildina er litið. Á þessu ári hefur hins vegar verið afar dauft yfir hlutabréfamarkaðnum og það sem af er ári hefur vísitalan lækkað um ríflega 10%. Hrefna Ósk Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, segist í samtali við Viðskiptablaðið að sér finnist markaðurinn hafa verið harður við fyrirtækin í ár.

„Uppgjörin hafa að mínu viti verið betri en verðbreytingar á markaði endurspegla. Ég held að þetta sé vegna óvissu, pólitískrar óvissu vegna skattabreytinga og óvissu um hvernig muni ganga að aflétta fjármagnshöftunum. Það hefur verið óvenjumikil taugaveiklun á markaðnum.“

Hrefna segist hins vegar bjartsýn á framhaldið. „Ég er jákvæð gagnvart hlutabréfamarkaðnum, hef trú á áframhaldandi hagvexti og er nokkuð bjartsýn á auknar fjárfestingar en þær eru forsendan fyrir því að markaðurinn verði í lagi. Ég er bjartsýn á að þróunin verði jákvæð það sem eftir lifir þessa árs og raunar einnig fyrir næstu ár. Skuldaleiðréttingarnar munu leiða til þess að eigið fé heimilanna eykst og kaupmáttur sömuleiðis. Það getur ýtt undir sparnað og að einstaklingar geti í meira mæli tekið þátt í hlutabréfaviðskiptum en við mælum með því að þeir geri það í gegnum sjóði, eins og ég sagði áður. Til þess að örva markaðinn enn frekar myndi ég vilja sjá stjórnvöld veita skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa, eða sparnaðar eins og áður hefur verið gert.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .