Lággjaldaflugfélagið easyJet hafa tilkynnt um óvenjulélega sölu sex mánuði fram í tímann, jafnvel yfir hásumarið. Kennir félagið óvissu vegna útgöngu Bretlands út úr Evrópusambandinu og alþjóðahagkerfinu um og gaf félagið því út afkomuviðvörun um að horfur á öðrum ársfjórðungi væru verri en áður hafði verið talið.

Áður hafði félagið látið vita að það byggist við að tapa um 275 milljónum punda, eða sem samsvarar 44,2 milljörðum íslenskra króna á fyrri helmingi ársins. Þegar þetta er skrifað hefur gengi easyJet lækkað um 9,71% í dag.

Forstjóri félagsins, Johan Lundgren segir í BBC að eftirspurnin sé að minnka bæði frá Bretlandi og Evrópu, en félagið segir að þrátt fyrir þetta sé útlit fyrir að tekjur félagsins á hvert sæti verði eilítið betri á seinni helmingi ársins meðan kostnaðurinn standi í stað.

Félagið hefur þegar undirbúið sig fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, með stofnun easyJet Europe, en höfuðstöðvar þess félags er í Vínarborg. Það gerir þeim kleyft að fljúga innan Evrópusambandsins sama hvernig útgöngu Bretlands verður háttað.