*

laugardagur, 10. apríl 2021
Innlent 30. september 2017 12:01

Óverðtryggð lán í sókn

Óverðtryggð íbúðarlán hafa sótt í sig veðrið á undanförnum mánuðum. Í janúar voru óverðtryggð útlán um 250 milljónir en samtals 4,7 milljarðar í júlí og ágúst.

Gunnar Dofri Ólafsson

Seðlabanki Íslands birti í síðustu viku tölur um ný útlán bankanna að frádregnum uppgreiðslum í ágúst. Í þeim má meðal annars sjá að hlutur óverðtryggðra íbúðalána var margfalt meiri í júlí og ágúst en í janúar og enn meiri í samanburði við árið í fyrra þegar óverðtryggð útlán til heimila með veði í fasteign drógust saman.

Óverðtryggð lán eru þó ekki nærri því jafnfyrirferðarmikil og á seinni hluta árs 2015. Heildarútlán innlánastofnana til heimila með veði í húsnæði voru samtals um 781 milljarður í ágúst 2017. Í ágúst 2014 voru þau 621 milljarður. Þá var hlutur óverðtryggðra lána um 175 milljarðar og er nú um 196 milljarðar króna. Þessu til viðbótar skulda heimilin lífeyrissjóðunum um 297 milljarða með veði í fasteign og Íbúðalánasjóði tæpa 390 milljarða. Rétt er að horfa til þess að Leiðréttingin lækkaði höfuðstól lána á því tímabili sem horft er á auk þess sem verkfall lögfræðinga hamlaði afgreiðslu lána á vormánuðum 2015. Allt að einu drógust ný óverðtryggð útlán að frádregnum uppgreiðslum saman í fyrra um tæpa 2,9 milljarða en hafa aukist um sjö milljarða í ár. Vöxturinn var mestur í júlí og ágúst, þegar hann var um 4,7 milljarðar. Útlánavöxtur verðtryggðra lána í fyrra nam um 80 milljörðum og hafa þau aukist um 68 milljarða í ár.

Þessar tölur rýma við upplýsingar frá Íslandsbanka. Þar hefur hlutdeild óverðtryggða lána aukist töluvert. „Óverðtryggð lán eru í sókn og hafa verið það sérstaklega eftir að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í vor,“ segir Finnur Bogi Hannesson, vöru- og útibússtjóri húsnæðislána hjá Íslandsbanka. „Þá höfum við séð mikla aukningu í nýjum óverðtryggðum lánveitingum.“ Á grafinu hér að ofan sést þróun stýrivaxta í samhengi við ný útlán. „Margir festa óverðtryggða vexti til annaðhvort þriggja eða fimm ára og þá er verið að loka á ákveðna vaxtaáhættu með því, enda hefur verðbólga engin áhrif á þessi lán,“ segir Finnur Bogi.

Væntingar um hækkandi verðbólgu á næstu misserum gæti hvatt fólk til óverðtryggðrar lántöku frekar en verðtryggðrar. „Það spilar tvímælalaust inn í, fólk sér hag sinn þá betur í að festa óverðtryggða vexti og koma sér í skjól.“ Hann segir að fólk ráði að sjálfsögðu hvort það sé með alla sína fjármögnun í föstum óverð- tryggðum lánum eða fari blandaða leið. Greiðslugeta hefur auðvitað áhrif í þessum efnum, því greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri – að minnsta kosti á fyrri hluta lánstímans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.