*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 26. nóvember 2013 07:50

Óverðtryggð lán margfalt algengari en verðtryggð

Seðlabankinn birtir nýjar upplýsingar um óverðtryggð og verðtryggð útlán.

Ritstjórn
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á einum af stýrivaxtafundum í bankanum.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Upphæð óverðtryggðra lána var fjórfalt hærri en óverðtryggðra á fyrstu níu mánuðum ársins, samkvæmt því sem fram kemur í nýjum upplýsingum Seðlabankans um útlán. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að þetta sé þvert á það sem hafi áður komið í ljós í tölum bankans. Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, segir í samtali við blaðið misræmið skýrast af því að Seðlabankinn birti nú í fyrsta sinn tölur yfir hrein ný útlán að frádregnum uppgreiðslum.

Alls nam upphæð óverðtryggðra lána 27,1 milljarði króna á tímabilinu frá 1. janúar til 30. september en var til samanburðar 6,4 milljarðar í verðtryggðum lánum. Þar af voru um 20 milljarðar af óverðtryggðum lánum með veði í íbúðarhúsnæði.

Þorvarður Tjörvi segir: „Það var ákveðinn gagnavandi til staðar. Það var ekki auðvelt að ná yfir hvaða lán væru í reynd ný útlán. Þess vegna hefur Seðlabankinn unnið að því að fá ný gögn. Þetta er í fyrsta sinn sem þau eru birt,“ segir hann.

Þá segir í Morgunblaðinu að áhrif peningastefnunnar séu líkleg til að verða meiri en ella við það að vægi óverðtryggðra lána aukist. „Það er enda mun greiðfærari miðlun frá stýrivaxtabreytingum í lán með óverðtryggða vexti heldur en verðtryggða vexti. Það er sérstaklega vegna þess að hluti af óverðtryggðum lánum ber breytilega vexti og þau eru almennt til skemmri tíma. Breytilegu vextirnir þróast í takt við breytingar stýrivaxta en það þýðir um leið að þeir geta sveiflast meira og því er mikilvægt að fólk hafi svigrúm til að takast á við slíkar sveiflur,“ segir Þorvarður Tjörvi.