Arion banki hefur fjölgað þeim óverðtryggðu íbúðalánum sem viðskiptavinum bankans standa til boða. Annars vegar er um að ræða óverðtryggð íbúðalán byggð á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands að viðbættu 0,95% álagi. Slíkt lán bæri í dag 6,95% breytilega vexti sem breytast eftir stýrivaxtaákvörðunum Seðlabankans.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða nýjung á íslenskum lánamarkaði, þar sem kjör íbúðalána hafi ekki áður verið tengd vöxtum Seðlabankans með svo beinum hætti. Um þessa tegund lána gildir, að því er bankinn segir, að þau henta þeim sem sækjast eftir hraðari eignamyndun og hafa rúma greiðslugetu.

Hins vegar er um að ræða óverðtryggð íbúðalán með föstum vöxtum til þriggja ára. Um er að ræða sambærileg lán og þau óverðtryggðu lán sem bankinn bauð fyrst upp á í september 2011 sem bera fasta vexti til fimm ára.