Þróun óverðtryggðra útlána
Þróun óverðtryggðra útlána

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Á síðustu tólf mánuðum hafa óverðtryggðar íbúðalánveitingar bankanna tvöfaldast. Mikla aukningu má að stórum hluta rekja til skuldabreytinga á ólögmætum gengistryggðum lánum, en þeim var hægt að breyta í annað hvort verðtryggð eða óverðtryggð lán. Bankarnir finna þó fyrir auknum áhuga á slíkum lánum og hafa 90% nýrra íbúðalána hjá Íslandsbanka verið óverðtryggð frá árinu 2009. Viðskiptabankarnir bjóða í dag allir óverðtryggð íbúðalán til einstaklinga, en MP banki og Arion banki hófu að bjóða lánin á síðustu vikum.

Lengst af voru svo gott sem öll íbúðalán verðtryggð, og hóf Seðlabankinn ekki að skrá óverðtryggð íbúðalán sérstaklega fyrr en í október 2008. Þá höfðu bankarnir lánað heimilum tæplega 300 milljónir til óverðtryggðra íbúðakaupa. Upphæðin jókst hratt í fyrra og voru útistandandi óverðtryggð lán um 24,5 milljarðar í ágúst 2010, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Síðan þá hefur orðið mikið stökk og upphæð útistandandi óverðtryggðra lána tvöfaldast.

Að sögn Svövu Óskarsdóttur hjá Seðlabanka Íslands má að stórum hluta rekja aukninguna til skuldabreytinga vegna gengistryggðra lána. Nýjustu tölur Seðlabankans ná til loka ágústmánaðar.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.