Forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs funda þessa dagana með fulltrúum Fjármálaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans varðandi óverðtryggð lán Íbúðalánasjóðs. Eins og greint hefur verið frá stefnir Íbúðalána­sjóður á að bjóða óverðtryggð lán og hefur Sigurður Erlingsson for­stjóri sjóðsins sagt að fyrirkomulag­ið verði ólíkt því sem bankarnir hafa boðið. „Nú erum við á þessu loka­stigi og stjórnum raunar minnstu um þennan hluta. Við erum að kynna þetta fyrir stjórnvöldum og bíðum eftir grænu ljósi,“ segir Sigurður. Hann vill lítið gefa upp um það fyrirkomulag á lánum sem sjóðurinn kynnir nú fyrir yfirvöldum þar sem mögulegt er að breytingar verði á þeim í ferlinu. Sigurður segist heldur búast við að það dragi til tíðinda í seinni hluta þessa mánaðar eða í byrjun næsta.