Áhrif álvers Norðuráls á lífríkið eru óveruleg samkvæmt niðurstöðum rannsókna á loftgæðum, ferskvatni, lífríki sjávar, gróðri og búfénaði. Frá því Norðurál hóf rekstur á Grundartanga árið 1997 hefur farið fram ítarleg vöktun á áhrifum álversins á umhverfið. Vöktunin felur í sér rannsóknir og eftirlit á 59  mæliþáttum í og við Hvalfjörð. Rannsóknirnar eru gerðar af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri óháðum aðilum.

Í tilkynningu frá Norðuráli segir að niðurstöður umhverfisvöktunar árið 2013 sýni að losun efna og áhrif álversins á umhverfi sitt séu  vel undir öllum viðmiðunarmörkum sem fyrirtækinu er sett í starfsleyfi og reglugerðum. Þeir þættir sem eru vaktaðir eru andrúmsloft, úrkoma, ferskvatn, kræklingur, sjávarset, gras, lauf, barr, sauðfé og hross.

Til álvera á Íslandi eru gerðar miklar kröfur af umhverfisyfirvöldum og eru þær meðal þeirra ströngustu í heimi.