Hagnaður af reglulegri starfsemi Tanga hf. á Vopnafirði nam 5,8 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins eftir skatta. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður af starfsemi félagsins 47,9 milljónum króna. Framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði hækkaði úr 158,7 milljónum króna eða 17,4% fyrstu sex mánuði ársins 2003 í 179,7 milljónir króna eða 18,7% á fyrstu sex mánuði ársins 2004.

Í stað jákvæðra fjármagnsliða um 23,4 milljón króna fyrstu sex mánuði ársins 2003 eru fjármagnsliðir nú neikvæðir um 63,8 milljón króna. Afkoma félagsins versnar því um rúmar 87,2 milljónir króna á milli sambærilegra tímabila vegna breytinga á fjármagnsliðum.

Veltufé frá rekstri nam 135 milljónum króna, en var 123,7 milljóna króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2003. Handbært fé frá rekstri var 149,4 milljónir króna fyrstu sex mánuði þessa árs en var 213,3 milljónir króna á sama tímabili ársins 2003.

Framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði lækkaði úr 99,2 milljónum króna eða 23% á öðrum ársfjórðungi árið 2003 í 44,8 milljónir króna eða 11% á sama tímabili árið 2004.

Það sem helst veldur lægri framlegð rekstrar er hátt olíuverð, minni veiði á kolmunna og grálúðu auk lægra verðs á helstu afurðum, sér í lagi fiskimjöli.

Þróun kolmunnaveiða, gengis og olíuverðs mun ráða miklu um afkomu félagsins á árinu. Að óbreyttu mun annað skip félagsins, Sunnuberg, verða sett á söluskrá fljótlega. Fyrri hluti árs hefur yfirleitt verið félaginu hagfelldari en síldveiðar og verð á frystri síld skipta þó einnig miklu um afkomu á seinni hluta árs.