Hráolíuverð hefur hækkað örlítið á mörkuðum í dag og stafar það helst af áhyggjum vegna yfirvofandi óveðurs í Mexíkóflóa að sögn Reuters fréttastofunnar.

Hitabeltisstormurinn Fay mun að öllum líkindum skella á Mexíkóflóa í kvöld og færa sig þaðan til Flórídafylkis í Bandaríkjunum. Olíufélagið Shell lét um helgina flytja burt tæplega 400 vinnumenn af svæðinu og mun framleiðsla tefjast nokkuð vegna þessa.

Í utanþingsviðskiptum í Bandaríkjunum kostar tunnan af hráolíu nú 113,75 Bandaríkjadali en við lok markaða fyrir helgi kostaði hún um 111 dali.  Í Lundúnum kostar tunnan af Brent hráolíu 112,2 dali.

Þá hefur Reuters eftir greiningaraðilum að vegna skemmda á olíu- og gasleiðslum í Georgíu - eftir vopnuð átök þar í síðustu viku – muni eitthvað líða þangað til að olían lækki aftur.

Viðmælandi Reuters minnir þó á að um miðjan júlí kostaði tunnan um 147 dollara þannig að hráolíuverð hefur lækkað nokkuð s.l. mánuð. Óveðrið í Mexíkóflóa og skemmdar leiðslur í Georgíu kunna þó að tefja það lækkunarferli sem hafið var.