Vænta má hratt minnkandi arðsemi og líklega taps fluggeirans í þessu ári vegna afar óhagstæðra ytri skilyrða. Forsvarsmenn alþjóðlegra samtaka flugfélaga (International Air Transport Association – IATA) greindu frá þessu á árlegum fundi samtakanna í Istanbúl í dag.

Hækkandi eldneytisverð, samdráttur í hagkerfi Bandaríkjanna og stöðugar afhendingar flugvéla pantaðra í toppi hagsveiflunnar eru helstu ástæður erfiðra aðstæðna flugfélaga á heimsvísu.

Flugfélög í Bandaríkjunum hafa nú hækkað fargjöld og lagt ýmsan aukakostnað á þjónustu sína. Einnig hafa átt sér stað uppsagnir og þjónusta minnkað við faþega. Forsvarsmenn evrópskra flugfélaga hafa lýst því yfir að svipaðra aðgerða sé að vænta í þeirra ranni.

Talið er að niðursveifla fluggeirans muni koma harðast niður á lágfargjaldaflugfélögum. Stærsti kostnaðarliður þeirra er eldneyti, og sá liður mun óneitanlega aukast mikið í kjölfar hækkandi heimsmarkaðsverðs á eldsneyti.

Alls hafa 24 félög hætt starfsemi eða orðið gjaldþrota á síðustu sex mánuðum. Talið er að heildartap fluggeirans á árinu muni nema 2,3 milljarða dollara miðað við að ársmeðaltalsverð olíutunnunnar verði 107 dollarar, að því er Reuters greinir frá.

Hins vegar muni heildartap nema 6,1 milljarði ef olíutunnan mun áfram kosta 135 dollara. Á síðasta ári nam hagnaður geirans 5,6 milljörðum.

Forstjóri Emirates-flugfélagsins sagðist á fundinum búast við að olíuverðið nái hámarki í 140 dollurum en lækka síðan.

IATA er fulltrúi 240 flugfélaga sem sjá um 94% allra farþega- og fraktfluga í heiminum.