*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 2. mars 2015 17:17

Óviðunandi afkoma

Forstjóri Íslandspósts segir að tapið muni aukast ár frá ári ef ekki verði gripið til nauðsynlegra aðgerða sem háðar eru breytingum á lögum og reglum um póstþjónustu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

„Tekjur á árinu jukust um 7,2% en kostnaður um 5,6%. Það dugði þó ekki til að snúa taprekstri fyrra árs í hagnað," segir Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, í tilkynningu sem barst með ársreikningnum en fyritækið tapaði 43 milljónum króna í fyrra.

„Afkoma Íslandspósts á árinu 2014 var óviðunandi en töluvert vantar upp á að rekstur félagsins skili þeim hagnaði sem arðsemisstefna þess gerir ráð fyrir.

Miðað er við að rekstur Íslandspósts skili eigendum viðunandi arði sem miðar við að hagnaður sé árlega um 10% af eigin fé og enn fremur að auka verðmæti fyrirtækisins með því að stuðla að arðbærum vexti.

Tvær meginástæður eru fyrir óviðunandi afkomu á árinu 2014, magnminnkun bréfa og kostnaður dreifingarnetsins.

Áframhaldandi magnminnkun var á árituðum bréfum á árinu en þeim hefur fækkað um 51% síðan árið 2000. Fækkun bréfa á árinu leiddi til þess að einingarkostnaður við dreifingu bréfa jókst og dugðu verðhækkanir ekki til að standa undir auknum kostnaði. Á sama tíma og magnið hefur minnkað hefur heimilum og fyrirtækjum og þar með póstlúgum fjölgað umtalsvert. Þannig eykst kostnaður við dreifingarnetið jafnhliða því sem hann dreifist á færri bréf ef annað kæmi ekki til, svo sem fjölgun pakkasendinga og hagræðing í rekstri.

Með áframhaldandi magnminnkun áritaðra bréfa má búast við frekara tapi af rekstri Íslandspósts á næstu árum að óbreyttum kröfum í lögum og reglum um alþjónustu í póstdreifingu. Tapið mun aukast ár frá ári og rýra eigið fé félagsins ef ekki verður gripið til nauðsynlegra aðgerða sem háðar eru breytingum á lögum og reglum um póstþjónustu.

Á sama tíma og bréfamagn hefur dregist saman hefur fjöldi pakka og þyngri sendinga aukist. Þá hefur Íslandspóstur hagrætt í rekstri, stofnað og keypt fyrirtæki í tengdum og  virðisaukandi rekstri og tekið að sér umboðssölu fyrir nokkur sölu- og þjónustufyrirtæki.

Tilgangur þess er að ná betri nýtingu á þeim rekstrarþáttum sem grunnstarfsemi Íslandspósts er byggð á. Sá rekstur er að mestu utan skilgreindrar alþjónustu Íslandspósts og skilaði hann félaginu um 1.700 millj. kr. tekjum og um 240 millj. kr. hagnaði á árinu 2014.

Fram undan eru frekari breytingar, ný tækifæri og miklar áskoranir. Á næstu árum verður sjónum fyrst og fremst beint að grunnrekstri og tengdum þjónustusviðum. Þar að auki þarf að vinna að breytingum á lögum og reglugerðum um póstþjónustu sem miða að því að laga þjónustu að þörfum viðskiptavina, auka hagræðingu og hafa augu opin fyrir nýjum tækifærum, nýjum samstarfsaðilum og samlegð við annan arðbæran rekstur. Viðskiptamódel Íslandspósts án alþjónustuskyldu, sem unnt væri að innleiða við afnám einkaréttar ríkisins á póstþjónustu, gefur möguleika á að lækka kostnað við dreifikerfi félagsins um allt að 1.200 millj. kr. og getur það skapað svigrúm til þess að lækka burðargjöld bréfa um fjórðung frá því sem nú er."