Tekjur íslensku sjávarútvegsfélaganna námu 225 milljörðum króna á árinu 2017 og lækkuðu um 28 milljarða króna frá síðasta ári eða um 11%. EBITDA var 40 milljarðar króna og lækkaði EBITDA framlegð ársins 2017 um 4 prósentustig frá fyrra ári og fór úr 22% í 18% á árinu 2017. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýútgefinni skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg.

EBITDA lækkaði hlutfallslega meira en tekjur eða um 29% sem bendir til þess að ekki hafi tekist að mæta lækkandi tekjum með kostnaðarhagræðingu. Þá litist þróun tekna á árinu 2017 af talsverðri gengisstyrkingu krónunnar sem átti sér stað á árinu. Gengi krónunnar var að meðaltali 11% sterkara á árinu 2017 frá fyrra ári.

Verð afurðanna of lágt

Runólfur Geir Benediktsson, forstöðumaður sjávarútvegsteymis Íslandsbanka, segir að meðal helstu  niðurstaðna í skýrslunni sé að rekstrarniðurstaða íslensku sjávarútvegsfélaganna fyrir árið 2017 sé í sjálfu sér óviðunandi. „Við erum komin á svipaðar slóðir og við vorum á árunum 2005-2007, en það var mikið talað um það á þeim tíma að rekstur sjávarútvegsfélaga væri nánast orðinn ósjálfbær og gæti ekki verið á þessum stað mikið lengur. Hagnaðurinn stóð ekki undir fjárfestingum, en án þess að fjárfesta er ekki hægt að byggja upp nýjan skipaflota, nýjar vinnslur og halda uppi samkeppni við erlenda samkeppnisaðila.

Það er því búið að vera mjög athyglisvert að horfa á afkomuna fara úr því að vera óásættanleg á árunum fyrir hrun yfir í það að vera góð um nokkurra ára skeið, og fara svo aftur á svipaðar slóðir og rétt fyrir hrun.  Félögin eru nokkurn veginn komin á sama stað og fyrir hrun þegar horft er til hagnaðar og framlegðar. Það eru mikil vonbrigði að þrátt fyrir að útflutningur sé að aukast þá er aflaverðmætið að minnka. Það kemur að einhverju leyti til vegna íslensku krónunnar, en það má líka benda á að ekki  hefur náðst að hækka verðið á vörunni nægilega mikið. Þeir útgerðarmenn sem ég hef rætt við taka undir að það séu vonbrigði að verð á íslenskum sjávarafurðum, þá sérstaklega botnfiski, hafi verið  svona lágt. Það hefur ekki náðst að hækka það og ef verðvísitala sjávarafurða síðasta áratuginn er skoðuð, en vísitalan mælir breytinguna á því verði sem framleiðandi fær fyrir fullunna afurð innanlands, þá sést að uppsjávarafurðirnar hafa hækkað nokkuð mikið. Meðal ástæðna fyrir því er mikil eftirspurn laxeldisfyrirtækja í fóður, sem hefur átt þátt í því að tekist hefur að fá hærra verð fyrir þessar vörur. Hins vegar hefur botnfiskurinn, þá aðallega þorskurinn sem ber höfuð og herðar yfir aðrar tegundir, verið alveg flatur og það hefur nánast ekki orðið nein hækkun á verði á botnfiski."

Sjávarútvegurinn of háður gengi krónunnar

Að sögn Runólfs er  krónan sá þáttur sem spilar stærstan þátt í afkomu sjávarútvegsfélaga.

„Það er ekki góð staða að vera háður því að krónan haldist veik þegar kemur að afkomu og arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Það er slæmt að krónan sé svo stór áhrifavaldur í því hvort þessi fyrirtæki eigi gott eða slæmt rekstrarár. Slæmu fréttirnar þarna eru svo þær að samkvæmt greiningardeild okkar þá er gert ráð fyrir því að krónan verði áfram nokkuð sterk til næstu ára. Sjávarútvegsfélögin geta því ekki bara beðið eftir því að krónan komi til bjargar í þetta skiptið.

Svo má einnig benda á það að kostnaður sjávarútvegsfyrirtækja er of mikill en þar vegur launakostnaðurinn þyngst. Í skýrslunni er það sýnt að launakostnaður sem hlutfall af tekjum hefur verið að hækka mikið á síðastliðnum árum. Það er einnig óheppilegt að á sama tíma og reksturinn hefur reynst nokkuð þungur, hafa flest þessi félög verið að borga hærri veiðigjöld heldur en nokkru sinni áður. Við reiknum þó með því að 2018 verði betra ár fyrir sjávarútvegsfélögin og helsta skýringin á því er sú veiking krónunnar sem hefur átt sér stað undanfarið. Sjávarútvegsfyrirtækin hafa talað um að þessi veiking krónunnar hafi verið eins og að fá súrefni inn í lokað rými. Það skilar sér í auknum tekjum fyrirtækjanna þar sem nánast öll viðskipti þeirra fara fram í erlendri mynt og gengisveikingin hefur mun minni áhrif á kostnaðinn heldur en tekjurnar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .