Átök innan eigendahóps DV verða til lykta leidd á aðalfundi 29. ágúst. Reynir Traustason ritstjóri DV, hefur áhyggjur af stöðu mála.

„Allt hefur sinn tíma og ekkert varir að eilífu. Velti fyrir mér næstu framtíð. Sjö ár á DV í gegnum súrt og sætt," skrifar Reynir á Facebook í dag. Varð þetta til þess að einhverjir héldu að hann væri hættur störfum en í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins segir hann svo ekki vera.

„Hrikalegir tímar fyrir tveimur árum þegar himinháar skattaskuldir og innri breyskleiki voru að sliga félagið," skrifar Reynir á Facebook. „En starfsfólkinu tókst undir forystu Ólafs M. Magnússonar stjórnarformanns að sigrast á erfiðleikunum. Þar lögðu margir góðir menn hönd á plóg.

Hagur DV hefur líklega aldrei verið betri en nú. Ritstjórnin hefur farið á kostum og svo sannarlega virtist vera að rofa til. En að sama skapi hefur árásum á fjölmiðilinn fjölgað. Óvinurinn er allt í einu undir rúminu. Það verður áhugavert að sjá hvað gerist á næstu vikum.

Áhyggjuefnið er það hvernig fer fyrir frjálsum og óháðum miðli undir tilraunum til fjandsamlegrar yfirtöku. Sjálfur er ég pollrólegur og trúi því að réttlætið muni sigra. Ef ekki þá verður maður að taka ranglætinu. Lifi frelsið."