„Er það þess virði að fara í slagsmál út af slíku þegar við höfum aflamarkskerfi sem almennt er viðurkennt að hefur reynst okkur vel,“ spyr Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið .

Þar veltir hann vöngum yfir því hvort ástæða sé til þess að ráðast í heildarendurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins þegar ekkert útlit sé fyrir að sátt náist við stjórnarandstöðuna um málið. Ekki einu sinni sé fyrir hendi sátt um ákvæði sem séu í takti við það sem fyrri ríkisstjórn lagði til.

Jón segir að ef ekki náist samstaða við stjórnarandstöðuna um aðferðafræðina og hún geri ágreining um ákvæði sem hún sjálf hafi lagt til sé erfitt að ná sátt. „Hvers vegna er þá lagt upp í þá vegferð að breyta kerfi sem hefur reynst okkur vel og leitt til hagræðingar þannig að íslenskur sjávarútvegur skilar meiri arðsemi en sjávarútvegur í öðrum löndum,“ spyr Jón.