*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 12. maí 2019 15:04

Óvissa eftir besta uppgjörið til þessa

„Fall Wow Air og annar fyrirséður samdráttur í ferðaþjónustu hefur áhrif bæði á skatttekjur og velferðarútgjöld.“

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Sveitarfélögin hafa notið góðs af uppgangi í samfélaginu að undanförnum árum. Stærstu tekjustofnar þeirra eru útsvar, sem er hlutfall af tekjum einstaklinga, og fasteignaskattar, sem reiknaðir eru sem hlutfall af fasteignamati sem hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum. Nú eru hins vegar blikur á lofti vegna stöðunnar í hagkerfinu og því búist við að afkoma sveitarfélaganna verði verri á þessu ári. Þá eru lausir kjarasamningar hjá fjölmörgum starfsmönnum sveitarfélaganna. Nýir kjarasamningar munu ráða miklu um reksturinn, enda laun einn stærsti einstaki útgjaldaliður þeirra.

„Fall Wow Air og annar fyrirséður samdráttur í ferðaþjónustu hefur áhrif bæði á skatttekjur og velferðarútgjöld. Því er mikilvægt að sýna skynsemi og aðhald í rekstri,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, við birtingu uppgjörs sveitarfélagsins.

Komin undir skuldaviðmiðið

Búist er við að höggið verði hvað þyngst í Reykjanesbæ enda hefur sveitarfélagið notið góðs af uppganginum á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár. Eftir langa þrautagöngu komst Reykjanesbær undir 150% skuldaviðmiðið á síðasta ári. Samhliða afgreiðslu ársreikningsins í bæjarstjórn var sagt að afkoman á síðasta ári hefði verið sú besta í 25 ára sögu sveitarfélagsins. Þá fjölgaði íbúum þess um ríflega 6% í fyrra en hugsanlega mun sú þróun ganga að hluta til baka á þessu ári. Í ársreikningnum segir að búist sé við að skuldaviðmiðið muni hækka á ný vegna byggingar nýs grunnskóla í Stapahverfi en verði verði varanlega komið undir 150% skuldaviðmið fyrir árslok 2022.

Eigið fé Reykjaneshafnar var aftur á móti neikvætt um 71%. Í ársreikningnum segir að vafi sé á um rekstrarhæfi hafnarinnar. Reykjaneshöfn hefur farið í nokkra uppbyggingu í Helguvík án þess að það hafi skilað þeim tekjum sem vænst var til. Höfnin átti til að mynda 160 milljónir inni vegna ógreiddra gjalda við gjaldþrot United Silicon. Í skýringu með ársreikningnum segir að enn sé vonast eftir að uppbygging kísilvers Thorsils í Helguvík hefjist á þessu ári. Þá vinnur Arion banki að endurreisn kísilvers United Silicon undir nýju nafni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér