Eins og lög og reglur um gjaldeyrishöft eru núna ber íslenskum aðilum, einstaklingum eða fyrirtækjum, að skila heim söluhagnaði af erlendum eignum, sem fyrirtækin eignuðust eftir að höftin voru sett á. Undantekningar eru á þessari skyldu, einkum sú að þau fyrirtæki sem eru með almenna undanþágu frá höftunum mega halda söluhagnaðinum eftir erlendis og nota hann til endurfjárfestingar.

Almennt ber þó að skila hagnaðinum heim. Það er þó alls ekki víst að þetta eigi við um hagnað félags í eigu Jóhannesar Jónssonar, sem kenndur er við Bónus, af sölunni á 50% eignarhlut í færeysku verslanakeðjunni SMS, samkvæmt upplýsingum frá sérfróðum lögmönnum. Vegna þess að íslenska félagið Apogee ehf. er í eigu erlends félags, Moon Capital s.á.r.l., getur verið að hagnaðurinn fari til þess félags án þess að þurfa að stoppa við hér á landi. Erfitt er hins vegar að fullyrða um það vegna þess hve litlar upplýsingar er að finna um erlenda félagið, þar á meðal eigendur þess.

„Mitt prívatmál“

Félagið EB 1 ehf. keypti hlutinn í SMS af Arion banka haustið 2010 og kom fram í fréttum að kaupverðið nam 450 milljónum króna. Ekkert hefur hins vegar fengist gefið upp um hvað fékkst fyrir hlutinn þegar hann var seldur færeyskum aðilum í síðasta mánuði. Þá hefur ekki komið fram hvort söluandvirðinu hefur verið skilað á íslenskan bankareikning. Þegar haft var samband við Jóhannes Jónsson vildi hann ekkert tjá sig um söluna. „Þetta er mitt prívatmál,“ sagði hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.