Leiðandi hagvísir ráðgjafafyrirtækisins Analytica, sem á að gefa vísbendingu um efnahagsumsvif eftir hálft ár, stóð í stað í febrúar.

Hagvísirinn gefur samt sem áður áfram vísbendingu um að hagvöxtur aukist á ný snemma á þessu ári, enda hefur hann farið hækkandi undangengna sex mánuðina.

En meiri óvissa ríkir þegar litið er fram til haustmánaða segir á heimasíðu fyrirtækisins. Hækkun varð í þremur af sex undirliðum hagvísisins, það eru erlend hlutabréf, magnvísitala fiskafla og innflutningur svo langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er enn sterk.

Hins vegar geta áhættuþættir í ytra umhverfi ógnað hagvexti einkum þeir sem eru tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Með því að reyna að greina þætti í upphafi framleiðsluferlisins er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.

Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferða­fræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD, segir á vef fyrirtækisins sem rekið er af Yngva Harðarsyni hagfræðingi.