Niðurstöður nýyfirstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum skóku heimsbyggðina í gær enda margir sem gerðu ráð fyrir öruggum sigri Hillary Clinton. Svo fór þó ekki og nú er ljóst að frambjóðandi Repúblikanaflokksins, Donald Trump, kemur til með að verða 45. forseti Bandaríkjanna. Fréttirnar ollu fjaðrafoki á alþjóðamörkuðum og féll hlutabréfaverð í Asíu og nágrenni þannig til að mynda hratt þegar ljóst var að sigur Trumps var innan seilingar. Þá hrundi mexíkóski pesóinn jafnframt og hafði í gær ekki verið lægri frá árinu 1994.

Titringurinn er ef til vill skiljanlegur enda hafa stefnumál Trumps meðal annars falið í sér fráhvarf frá stefnu Bandaríkjanna varðandi fríverslun, lokun landamæra, riftun Parísarsamkomulagsins sem  undirritað var árið 2015 og breyttar áherslur í utanríkismálum svo vægt sé til orða tekið. En hvaða áhrif koma úrslitin og áherslur Donalds Trump til með að hafa á Ísland?

Bandaríkin nú uppspretta óróa

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir erfitt að segja til um hver áhrifin verða í ljósi þess hve skammt er frá liðið. „Nokkuð ljóst er að óvissa mun aukast töluvert til skamms tíma, sem gæti m.a. komið fram í erfiðari fjármálalegum skilyrðum á alþjóðamörkuðum og aukinni áraun á gjaldmiðla, t.d. gjaldmiðla landa sem eru háð viðskiptum við Bandaríkin.

Þótt Bandaríkin séu venjulega talin öruggt skjól í alþjóðlegum óróa, er erfiðara að meta hvað gerist nú þegar þau eru í raun uppspretta óróans og því er ekki útilokað að það verði söluþrýstingur á bandarískar fjáreignir. Erfiðara er hins vegar að segja til um hver langtímaáhrifin gætu orðið en það mun m.a. velta á því til hvaða aðgerða nýr forseti grípur, ekki síst í tengslum við alþjóðasamskipti og -viðskipti, sjálfstæði Seðlabanka Bandaríkjanna og í ríkisfjármálum,“ segir Þórarinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.