Starfsmönnum fjárfestingabankans Bear Stearns berast þessa dagana tilkynningar þess efnis hvort þeir muni halda störfum sínum eftir að yfirtaka JPMorgan er gengin í gegn, en Reuters greinir frá þessu í dag. Eins og greint hefur verið frá áður er JPMorgan að taka Bear Stearns yfir með fulltingi bandaríska seðlabankans til þess að bjarga síðarnefnda fjárfestingabankanum frá gjaldþroti.

Einn starfsmanna Bear Stearns sem starfar í markaðsviðskiptum í nýmarkaðsríkjunum segir í samtali við Reuters að honum hafi borist uppsagnarbréf. Annar í sömu deild sagðist eiga von á sams konar bréfi síðar um daginn.

Þó sitja ekki allir í sömu súpunni. Aðrir sem ræða við Reuters segjast hafa fengið atvinnutilboð frá JPMorgan.

Bear Stearns hefur ekki viljað segja hversu mörg störf myndu tapast vegna samrunans. Endanlegur fjöldi uppsagna væri ennþá í skoðun. Þó herma heimildir Reuters að allt að helmingi þeirra 14.000 manns sem starfa hjá Bear Stearns verði sagt upp.

JPMorgan hefur ekki tjáð sig um málið.