Mikil óvissa ríkir í kjaraviðræðum atvinnuflugmanna við Icelandair en fundur samningsaðila með ríkissáttasemjara gær skilaði litlum árangri, að því er fram kemur í viðtali við Örnólf Jónsson, formann samninganefndar flugmanna, í Viðskiptablaðinu í dag.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, vildi það eitt segja að félagið ynni að fullum heilindum að því að ná samningum. Hann kvaðst vonast til þess að málið leystist með farsælum hætti.

Félagsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna ákváðu um miðjan apríl að hefja undirbúning verkfalls. Örnólfur vildi í samtali við Viðskiptablaðið lítið tjá sig um það hvort slíkur undirbúningur væri hafinn. Ekki náðist í Jóhannes Bjarna Guðmundsson, formann félagsins. Næsti fundur hjá ríkissáttasemjara er 15. maí.

Flugfreyjur orðnar óþolinmóðar

Samninganefnd Flugfreyjufélagsins fundar með fulltrúum Icelandair hjá ríkissáttasemjara á morgun og má búast við að til tíðinda gæti dregið að loknum þeim fundi. Formaður Flugfreyjufélagsins, Sigrún Jónsdóttir, segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að þolinmæði þeirra sé að bresta.

Flugfreyjur og flugþjónar hjá Icelandair ákváðu einnig um miðjan apríl að hefja undirbúning verkfalls. Einnig er fjallað um kjaradeilu flugmanna hér og flugfreyja hér.