Stjórnendur Avion Aircraft Trading (AAT) eru að kanna réttarstöðu sína eftir að Icelandair Group ákvað að rifta viljayfirlýsingu um leigu á tveimur og kaup á tveimur nýjum Airbus A330-200 fraktvélum. Að sögn Hafþórs Hafsteinssonar, stjórnarformanns AAT, eru þeir að skoða sína réttarstöðu í málinu en hann tók fram að þeir hefðu ekki fengið neina skriflega tilkynningu vegna málsins. Icelandair greiddi inn á væntanlegt kaupverð vélanna við undirritun viljayfirlýsingarinnar og að sögn Hafþórs er ekki sjálfgefið, að þeirra mati, að það verði greitt til baka. Ekki liggur fyrir um hve háa upphæð er að ræða en við undirritun samnings er venjulega miðað við að 10% af kaupverði sé greitt. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, sagði aðspurður að þeir gerðu ráð fyrir að fá staðfestingargjald vegna viljayfirlýsingar endurgreitt.

„Okkur finnst þetta mjög alvarlegt mál þegar þetta er búið að vera svona langt ferli og búið að leggja svona mikla vinnu í þetta. Við áttum síðasta fund fyrir þremur vikum þar sem verið var að ljúka við lokaatriði samningsins. Þetta kemur því eins og köld vatnsgusa yfir okkur og hafði ekki átt sér neinn fyrirvara,“ sagði Hafþór. Hann benti á að það væri ekkert nýtt af efnahagsumhverfinu að frétta og því gætu breytingar þar varla skipt höfuðmáli. Auk þess hefðu vélarnar ekki átt að afhendast fyrr en 2010 og 2011. „Við höfum lagt töluverða vinnu í þetta og kostnað því samfara, svo sem vegna lögfræðivinnu, og það er eitthvað sem við gefum ekki eftir. Okkur þykir verst að hafa misst svona mikinn tíma því það hafa margir áhuga á þeim og við höfum orðið að halda þeim frá áhugasömum aðilum,“ sagði Hafþór.

Að sögn Björgólfs er þessi ákvörðun Icelandair núna ekki á neinn hátt til marks um breyttar áherslur í flugvélakaupamálum þeirra. „Menn voru bara að leggja mat á skuldbindinguna sem í þessu fælist og hvaða áhrif það hefði á fyrirtækið í heild sinni og í ljósi þeirra aðstæðna sem eru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það er ekki búið að leggja til hliðar áform um stækkun Icelandair Cargo, eins og greint var frá við undirritun viljayfirlýsingarinnar,“ sagði Björgólfur. Hann tók fram að félagið ætti eftir að fara í gegnum mikla vinnu vegna flugvélakaupa framtíðarinnar og tók fram að það hefði ekki neina sérstaka bindingu við einn framleiðanda frekar enn annan. „Boeing hefur engan forgang á okkur.“