Mikil óvissa ríkir um fjárhagslega endurskipulagningu Nýsis. Félagið hefur verið í endurskipulagningu síðan í september síðastliðnum en að sögn Sigfúsar Jónssonar framkvæmdastjóra félagsins hefur fall bankanna tafið ferlið.

Fimm manna nefnd frá bönkunum hefur unnið að því að skoða rekstur félagsins en Sigfús sagði að engin niðurstaða hefði fengist. Í september kom fram tilboð frá Landsbankanum í allar eigur félagsins en engin lúkning hefur fengist á því máli.

Sigfús hefur undanfarið einbeitt sér að erlendri starfsemi Nýsis sem er umfangsmeiri en sú sem er hér á Íslandi. Fyrir ári voru undirritaðir samningar um byggingu á tíu skólum og einni íþróttabyggingu í einkaframkvæmd í Aberdeen, Skotlandi.

Dótturfélag Nýsis hf., NYOP Education (Aberdeen) Ltd. er verksali en helstu samstarfsaðilar E.Pihl og Son A/S, Landsbankinn hf. og Operon. Um er að ræða fjárfestingu að fjárhæð 16,5 milljarðar íslenskra króna á þávirði og samningar voru um að reka mannvirkin í 30 ár. Framkvæmdir áttu að hefjast á síðasta ári og stefnt var að því að ljúka þeim 2010.

Að sögn Sigfúsar er lausn á málum félagsins í Bretlandi með öðrum hætti en á Íslandi. Þar kemur Landsbankinn einn að málum. ,,Það er allt á fullu í Bretlandi en gjaldþrot Landsbankans setti mikið strik í Bretlandi, sérstaklega þar sem Landsbankinn varð að hætta við að fjármagna skólann í Aberdeen." Að sögn Sigfúsar er unnið að því að fá annan fjárfestir að verkefninu með aðstoð Landsbankans. Hann átti ekki von á niðurstöðu þar um fyrr en í mars næstkomandi.