Að sögn Sigurmars K. Albertssonar hrl., skiptastjóra Pennans ehf., hefur innköllun vegna búsins ekki verið birt ennþá en stærsti kröfuhafinn, Nýi Kaupþing banki hf., leysti til sín stóran hluta af rekstri Pennans en bankinn hafði allsherjarveð í eignum félagsins.

Áður en til gjaldþrots kom hafði bankinn tekið yfir hluta af rekstri félagsins og skuldbindingar gagnvart flestum þeirra 200 starfsmanna sem eru hjá félaginu en hann rekur félagið nú undir nýrri kennitölu.

Í þessu nýja rekstrarfélagi bankans er auk starfseminnar á Íslandi helmingshlutur í kaffihúsakeðju á Írlandi og starfsemi í Finnlandi.

Þrotabúið sér hins vegar um að reka þá starfsemi sem Penninn átti í Lettlandi en það var vistað í eignarhaldsfélaginu Kopa Holding. Sænskur banki er með 2,5 milljóna evru kröfu á það félag.