Áform um kísilver í Helguvík eru í uppnámi og gæti svo farið að samningum verði rift á næstu dögum og hætt við verkefnið. Ástæðan er krafa bandarískra fjárfesta um afslátt frá orkuverði. Sagt var frá þessu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að allt væri í frosti með álver í Helguvík.

Til stóð að 150 manns fengju vinnu við smíði kísilversins, sem átti að hefjast í Helguvík í fyrrasumar, og síðan yrðu til 90 framtíðarstörf þegar rekstur hæfist. Það bólar hins vegar ekkert á framkvæmdum.

Íslenska kísilfélagið er 85% í eigu bandaríska fyrirtækisins Globe Speciality Metals. Fyrirvarar voru í samningunum, sem undirritaðir voru fyrir ári, og á grundvelli þeirra hefur kísilfélagið fjórum sinnum fengið frestað fullgildingu orkusamningsins við Landsvirkjun og HS Orku, en síðasti fresturinn rennur út á miðvikudag.

Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 hefur Landsvirkjun nú tilkynnt ráðamönnum kísilfélagsins að frekari frestir verði ekki veittir og nú sé komið að því að taka endanlega ákvörðun, af eða á. Globe-menn hafa svarað á móti að þeir treysti sér ekki til að hefjast handa nema orkusamningurinn verði endurskoðaður. Bæði vilja þeir seinka afhendingartíma orkunnar vegna tafa á verkefninu en einnig vilja þeir afslátt frá orkuverði vegna verðlækkunar á kísil.

Uppfært 14. febrúar kl. 9:50: Röng mynd birtist upphaflega með þessari frétt sem tengdist ekki kísilveri í Helguvík.