Á fulltrúarársfundi Samtaka atvinnulífsins sem haldin var í gær var samþykkt ályktun þar sem segir að óvissa og óróleiki á erlendum og innlendum fjármálamörkuðum mun setja mark sitt á efnahagsframvinduna á Íslandi á næstu mánuðum og jafnvel misserum. Fjármálageirinn sem verið hefur ein helsta uppspretta vaxtar í íslenskum þjóðarbúskap undanfarin ár mætir nú hækkandi fjármögnunarkostnaði sem leiðir til aukinnar varfærni og minni umsviða.

Í ályktuninni segir að ákveðin hætta sé á samdrætti í Bandaríkjunum sem smitast muni til annarra heimsálfa. Íslendingar munu ekki fara varhluta af þessari þróun sem auk hás olíuverðs og minnkandi sjávarafla mun leiða til þess að hagvöxtur verður að líkindum óverulegur á næsta ári.

“Við þessar aðstæður ganga Samtök atvinnulífsins til kjarasamninga við helstu viðsemjendur sína. Brýnt er að niðurstaða þeirra verði til þess að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu og að verðbólga komist fljótlega á svipað stig og í viðskiptalöndunum. Við það ber að miða að launakostnaður vegna samninganna breytist ekki á næsta ári umfram það sem almennt gerist í kjarasamningum í viðskiptalöndunum. Mikilvægt er að það svigrúm verði nýtt til þess að bæta stöðu þeirra sem mest reiða sig á launaliði kjarasamninga, þ.e. þeirra sem taka laun samkvæmt lágmarkstöxtum samninga og þeim sem einungis hafa fengið almennar launahækkanir. Sú leið felur jafnframt í sér að þeir sem hafa notið launaskriðs fá ekki frekari hækkanir við gerð kjarasamninga að þessu sinni,” segir í ályktuninni.