Ægir Sjávarfang hf. framleiddi þar til nýlega niðursoðna þorsklifur í Grindavík og í dag fer þar fram samskonar framleiðsla undir merkjum Ægis Sjávarfangs ehf., eftir yfir hálfs milljarðs króna gjaldþrot hins fyrrnefnda.

Reksturinn gekk vel framan af og árið 2014 hófst starfsemi í nýrri verksmiðju fyrirtækisins í Ólafsvík, en sama ár var sagt frá því að framleiðsla fyrirtækisins hefði vaxið úr 3 milljónum dósa í 11 á einu ári.

Stuttu seinna fór hins vegar að síga á ógæfuhliðina. Borgarastríð braust út á Krímskaganum og olíuverð hrundi, með þeim afleiðingum að rússneska rúblan féll um 40% gagnvart krónunni á hálfu ári, og með henni stærsti markaður Ægis.

Hjónin Ingvar Vilhjálmsson og Helga María Garðarsdóttir hafa átt fyrirtækið frá 2011. Ingvar segir reksturinn hjá sér og sambærilegum verksmiðjum hafa verið brokkgengan í gegnum tíðina, fyrst og fremst vegna þess að verð bæði á aðföngum til framleiðslunnar og lokaafurðinni sé sveiflukennt og ráðist nánast alfarið af ytri þáttum. „Akkilesarhæll þessara verksmiðja hefur verið að þær hafa keypt hráefni beint af útgerðarfélögunum og því verið að einhverju leyti óöruggar með bæði magn og verð hráefnis.“

„Þetta er þar að auki mjög lítill markaður sem er að kaupa þetta. Samningarnir hafa verið þannig gerðir að þeir eru til eins árs, og verðið er fast.“ Á sama tíma og verðið sé fast í erlendum gjaldeyri, sé verðþróun bæði lifrarinnar og krónunnar óviss og gjarnan á reiki, og því geti framleiðendur hæglega lent í taprekstri stóran hluta ársins án þess að fá rönd við reist. Aðeins nokkrum árum síðar hafði staða fyrirtækisins versnað til muna og svo fór að verksmiðjan nýja í Ólafsvík var seld í árslok 2016, aðeins þremur árum eftir að starfsemi hennar hófst.

Ægir sjávarfang var svo tekið til gjaldþrotaskipta í september síðastliðnum, með kröfur upp á 537 milljónir króna. Allar eignir höfðu þá verið veðsettar og því fékkst ekkert upp í almennar kröfur í þrotabúið, en bróðurpartur þeirra var í eigu hjónanna sjálfra.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .