Nokkur óvissa ríkir um mögulega aðkomu lífeyrissjóðanna að hlutafjárútboði Icelandair Group. Útboðið hefst í dag og lýkur á morgun kl. 16. Þátttaka lífeyrissjóðanna mun ráða úrslitum um hvort Icelandair Group takist áætlunarverk sitt, sem er að sækja nýtt hlutafé að andvirði allt að 23 milljarða króna. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Samkvæmt Fréttablaðinu halda fjórir stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR, Gildi og Birta, spilunum þétt að sér um það hvort þeir taki þátt í útboðinu og þá fyrir hve háa fjárhæð þeir muni fjárfesta. Eru stjórnir lífeyrissjóðanna sagðar ætla að funda í dag og snemma á morgun til að komast að endanlegri niðurstöðu.

Viðmælendur Fréttablaðsins, sem koma meðal annars úr röðum lífeyrissjóðanna og hópi ráðgjafa Icelandair við útboðið, telja mestu óvissuna ríkja um afstöðu Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Gildis. Talsverð gjá sé milli fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna um hvort sjóðurinn eigi að taka þátt í útboðinu eður ei. Lífeyrissjóður verslunarmanna er næststærsti hluthafi Icelandair Group með tæplega 12% hlut í sinni eigu.