Ljóst er að um endanlega greiðslubyrði vegna nýrrar lántöku ríkissjóðs er enn töluverð óvissa. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, á Alþingi í dag.

Fram kom í máli þingmannsins að óvíst væri um endanleg lánskjör og hvort eða að hve miklu leyti dregið yrði á lánalínur sem opnaðar verða. Eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin samið um lánafyrirgreiðslu frá m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þingmenn ræddu þá fyrirgreiðslu á Alþingi fyrr í dag.

Gríðarleg skuldsetning blasir við

Í áliti meirihluta fjárlaganefndar þingsins segir að greiðslybyrði af lánum sem tekin hafa verið í kjölfar neyðarlaganna velti að miklu leyti á því hvaða fjármunir fást fyrir sölu á eignum gömlu bankanna. „Þar geta tímasetningar og söluferli eignanna skipt miklu máli," segir í álitinu.

Minnihluti fjárlaganefndar Alþingis segir í sínu nefndaráliti að við blasi gríðarleg skuldsetning ríkissjóðs „með tilheyrandi kostnaði vegna lána og mjög þungri endurgreiðslubyrði," segir í álitinu.