Eiginfjárhlutfall sveitarfélagsins Álftanes var neikvætt um síðustu áramót um 40,4%, samkvæmt nýbirtum ársreikningi sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaða síðasta árs var neikvæð um 404 milljónir en samkvæmt áætlunum var gert ráð fyrir 1.380 milljóna króna rekstrarafgangi. Eigið fé var í árslok 2011 neikvætt um 1.653 milljónir. Endurskoðendur ársreikningsins segja verulega óvissu ríkja um áframhaldandi rekstrarhæfi sveitarfélagsins.

Heildarskuldir námu um áramótinu um 5,7 milljörðum króna og hækkuð um 251 milljón frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld voru 771 milljón á árinu. Íbúar þann 1. desember sl. voru 2412 og hafði þá fækkað um 67 frá árinu.

Fram kemur í áritun óháðra endurskoðenda í ársreikningnum að veruleg óvissa ríki um áframhaldandi rekstrarhæfi sveitarfélagsins, sem hefur átt í miklum greiðsluerfiðleikum. „Bæjastjórn Álftaness sendi Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) tilkynningu, í nóvember 2009, þess efnis að sveitarfélagið væri komið í fjárþröng og að bæjarstjórn teldi sér eigi unnt að standa í skilum. Að tillögu EFS skipaði ráðherra sveitarfélaginu fjárhaldsstjórn þann 8. febrúar 2010 með skipunartíma til 1. ágúst 2010. Fjárhaldsstjórn er nú skipuð til 2. júlí 2012. Fjárhaldsstjórn tók við stjórn fjármála sveitarfélagsins og er bæjarstjórn óheimilt að inna greiðslur af hendi úr bæjarsjóði án samþykkis hennar. Því ríkir veruleg óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi sveitarfélagsins,“ segja endurskoðendurnir.

Ársreikningur Álftaness .