Markaðir vesthanhafs opna í skugga þess að björgunaráform stjórnvalda í Washington á fjármálamarkaði eru í uppnámi og stærsta bankagjaldþrot sögunnar hefur átt sér stað í Bandaríkjunum.

Sem kunnugt er hafa bandarískir stjórnmálamenn róið öllum árum að því undanfarna daga við að koma sér saman um útfærslu björgunaraðgerðar, sem átti meðal annars að fela í sér að ríkið myndi verja 700 milljörðum Bandaríkjadala í að losa fasteignatryggð skuldabréf úr bókum aðþrengdra banka. Fæstum þótti tillagan fullkominn og þar af leiðandi voru uppi miklar deilur um útfærslu hennar. Flestir voru hinsvegar sammála um að brýn þörf væri á aðgerðum, ekki síst vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir á fjármálamörkuðum.

Ljóst var í nótt að samstaða myndi ekki nást meðal demókrata og repúblikana um útfærslu björgunaraðgerðarinnar. Á sama tíma bárust váleg tíðindi um að Washington Mutual-bankinn væri kominn í þrot. Skýr skilaboð til þingmanna um hversu brothætt ástandið er á fjármálamörkuðum.

Ástæða þess að þingmenn gátu ekki komið sér saman um björgunaraðgerðina liggur fyrst og fremst í óvissunni að baki verðlagningu á þeim eitruðu veðum sem bandaríska fjármálaráðuneytinu er ætlað að kaupa.  Verði þau keypt á of lágu verði þá myndi það eingöngu leiða til þess að takturinn í þeim afkskriftahrunadansi sem hefur verið stiginn á fjármálamörkuðum myndi hraðast.

Þá hugsun vilja fæstir hugsa til enda. Að sama skapi myndi of hátt verð á hinum eitruðum veðum leiða til þess að fjármálafyrirtæki sem hafa hagað sér glannalega yrðu skorinn úr snörunni á kostnað skattgreiðenda.

Flestir eru sammála að aðgerðin ein myndi að einhverju leyti eyða þeirri óvissu sem ríkir um verðlagningu fasteignatryggðra skuldabréfa en að sama skapi hefur hið pólitíska hitamál snúist um hvernig mætti tryggja hag skattgreiðanda ef að síðarnefnda staðan kemur upp.

Það er ríkir því mikil óvissa á mörkuðum í dag. Helstu seðlabankar heimsins tilkynntu í morgun að þeir myndu dæla út enn meira lausafé til banka og fjármálastofnanna.

Til slíkra aðgerða hefur verið gripið allan þann tíma sem lánsfjárkreppan hefur ríkt en fjárfestar gera sér grein fyrir að þær leysa ekki grundvallarvandamálið sem nú ríkir á mörkuðum: Millibankamarkaðir eru svo gott sem frosnir og meðan bankar lána ekki til hvors annars þá mun aðgengi að fjármagni í raunhagkerfinu verða af skornum skammt.

Hugmyndir Henry Paulson, fjármálaráðherra um að ríkið myndi kaupa upp eitruð veð af bönkum og fjármálastofnunum var bæði djörf og epísk, en að sama skapi ríkti djúpstæður ótti um að hún myndi ekki skila tilætluðum árangri.

Örlög hugmyndarinnar afhjúpar hinsvegar mikilvæga staðreynd: Væntingar um að stjórnvaldsaðgerðir einar geti skorið á þann hnút sem nú ríkir á fjármálamörkuðum. Ljóst er að til tröllaukinnar aðgerðar þarf að grípa til að svo megi vera og að stjórnmálamenn í Bandaríkjunum vita að útfærsla slíkrar björgunar munu hafa djúpstæðar og viðvarandi afleiðingar fyrir það regluverk sem bankar og fjármálafyrirtæki starfa við.

Boltinn í lánsfjárkreppunni er vissulega kominn í hendur stjórnmálamanna. Tímasetningin gæti hinsvegar ekki verið verri nú rétt fyrir að gengið er til forsetakosninga í Bandaríkjunum.