*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 5. maí 2013 13:53

Óvissa um 6 milljarða kröfu Þorsteins Hjaltested

Þorsteinn fékk 2,2 milljarða vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á Vatnsenda og krefur bæinn um meira.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Óvissa ríkir um tæplega 6 milljarða kröfu Þorsteins Hjaltested á hendur Kópavogsbæ vegna meintra vanefnda bæjarins. Þorsteinn, ábúandi á Vatnsenda og skattakóngur Íslands síðustu tvö ár, stefndi Kópavogsbæ og krafðist nærri 7 milljarða króna. Héraðsdómur vísaði stærstum hluta krafna, um 6 milljörðum, frá í fyrra en úrskurðinum var þá áfrýjað til Hæstaréttar. Þar var málið sent aftur heim í hérað og héraðsdómi gert að taka fyrir kröfur að fjárhæð tæplega 6 milljarðar króna.

Óvíst er hvort Þorsteinn teljist réttmætur aðili málsins, þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu á föstudag að eignarhald á Vatnsenda tilheyri dánarbúi Sigurðar Hjaltested, afa Þorsteins. Í ársreikningi Kópavogsbæjar fyrir síðasta ár segir að búast megi við því að máli Þorsteins gegn Kópavogsbæ verði frestað þar til endanleg niðurstaða Hæstaréttar um eignarhald liggur fyrir.

Þorsteinn fékk greiddar 2.250 milljónir króna árið 2007 í tengslum við svokallaða eignarnámssátt vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á 864 hektara landi í Vatnsenda. Til viðbótar átti Þorsteinn að fá íbúða- og atvinnuhúsnæði úr hverjum skipulagsáfanga í byggð á Vatnsendalandi. Samningarnir gengu ekki eftir og stefndi Þorsteinn því bænum.