Enn er óvíst hvort efnt verður til sumarþings en samkvæmt starfsætlun Alþingis eru einungis sex dagar eftir af þinginu þar af fjórir þingfundir. Eldhúsdagur verður á miðvikudaginn og föstudaginn 16. verður þingfrestun. Að óbreyttu mun þingið síðan ekki koman saman aftur fyrr en næsta haust.

Enn hefur ekki náðst samkomulag um afgreiðslu mála og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er sumarþing þess vegna enn inni í myndinni. Formenn stjórnarflokkanna hafa fundað með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna en engin niðurstaða hefur fengist af þeim fundum um afgreiðslu mála. Samkvæmt heimildum blaðsins er alveg skýrt frá hendi stjórnarflokkanna að ef ekki tekst að afgreiða ákveðin mál fyrir þinglok verður boðað til sumarþings.

113 frumvörp til laga bíða afgreiðslu þingsins sem og 92 þingsályktunartillögur. Samkvæmt heimildum blaðsins eru það fyrst og fremst tvö mál sem stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að afgreiða en það eru mál er varða skuldaleiðréttingar og veiðigjald. Skuldaleiðréttingarmálin eru reyndar tvö, annars vegar frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og hins vegar frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Ástæðan fyrir því að stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að afgreiða frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld er einföld. Nýtt fiskveiðiár í september og því þarf að vera búið að ákveða veiðigjald fyrir þann tíma.

ESB-tillagan erfið

Þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hefur einnig valdið nokkrum erfiðleikum innan stjórnarflokkanna. Samkvæmt heimildum blaðsins eiga sjálfstæðismenn í miklum erfiðleikum með þetta mál. Tillagan er enn til umfjöllunar í utanríkismálanefnd sem leidd er af sjálfstæðismönnum undir formennsku Birgis Ármannssonar.

Nefndinni bárust um 200 umsagnir vegna tillögunnar og það að hún sé rétt núna að byrja að fara yfir þær þykir benda til þess að sjálfstæðismönnum liggi ekki mikið á að taka tillöguna úr nefndinni og til afgreiðslu þingsins. Birgir sagði raunar í samtali við fréttastofu RÚV í fyrradag að staða málsins væri auðvitað sú að ólíklegt væri að heildarmeðferð málsins gæti lokið í þinginu fyrir 16. maí.


Staða mála á Alþingi :
Lagafrumvörp:

  • Samþykkt: 49
  • Bíða 1. umræðu: 37
  • Í nefnd: 46
  • Bíða 2. umræðu: 30
  • Samtals: 162


Þingsályktunartillögur:

  • Samþykkt: 17
  • Bíða fyrri umræðu: 23
  • Í nefnd: 51
  • Bíða síðari umræðu: 18
  • Samtals: 109

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .