Hlutabréfamarkaðir lækkuðu vestanhafs í dag en líkt og í Evrópu eru fjárfestar uggandi vegna slæmra afkomutalna fyrirtækja og stíga því varlega til jarðar að mati Bloomberg fréttaveitunnar.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 2,8%, Dow Jones um 1,3% og S&P 500 um 1,5%.

Microsoft lækkaði um 10% í dag eftir að félagið sendi frá sér tilkynningu þar sem félagið tilkynnti að ekki væri hægt að gefa úr afkomuspá fyrir ársuppgjör félagsins þar sem staðan væri óljós og ekki væri vitað hversu illa alþjóða fjármálakrísan myndi koma niður á félaginu. Þá tilkynnti félagið að til stæði að segja upp allt að 5.000 manns á næstunni, sem þó er minna en orðrómur hafði verið um.

Greiningaraðilar á vegum Bloomberg fréttaveitunnar búast við um 28% minni meðalhagnaði félaga fyrir fjórða ársfjórðung þessa árs en í frétt Bloomberg er tekið fram að í mars í fyrra bjuggust greiningaraðilar við auknum hagnaði um það sem nemur 55%.

En stórir bankar lækkuðu talsvert í dag eftir að greiningarfélagið Oppenheimer & Co birti skýrslu í Financial Times að bankar og fjármálafyrirtæki væru í gjörgæslu stjórnvalda. Þannig væru og yrðu eignir þeirra seldar á brunaútsölu eftir röð mistaka síðustu 18 – 24 mánuði.

Citigroup og Bank of America lækkuðu um 14% svo dæmi séu tekin.

Verð á hráolíu lækkaði eilítið í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 42,84 Bandaríkjadali og hafði þá lækkað um 1,6%.