Margir fjárfestar í Kína telja mínúturnar þar til Ólympíuleikunum lýkur og vonast til að hlutirnir fari þá í sitt venjulega form á ný. Ólympíuleikarnir hafa haft mikil áhrif á kínversk fyrirtæki, en flutningur á ákveðnum vörutegundum hefur verið bannaður til og frá landinu, verksmiðjum hefur verið lokað og umferð takmörkuð til að minnka mengun og vegabréfaeftirlit hefur verið strangara en áður.

Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Þar segir einnig að þrátt fyrir að Ólympíuleikarnir muni líklega gera landið fýsilegri kost í augum fjárfesta þá sé enn margt sem getur farið úrskeiðis og slegið á áhuga fjárfesta á landinu.

Bent hefur verið á að fari mótmæli gegn stefnu Kínverja gagnvart Tíbet úr böndunum myndi það valda aukinni neikvæðni í garð Kína hjá yfirvöldum í Brussel og Washington.

Slíkt gæti gert Kínverjum erfiðara fyrir að fjárfesta erlendis og skaðað ímynd kínverskrar vöruframleiðslu.

Þrátt fyrir að ólíklegt sé að til þess komi þá eru flestir greiningaraðilar sammála um að fari eitthvað mikið úrskeiðis, t.d. ef mikil átök brjótast út eða ef hryðjuverk verða unnin, á leikunum muni það hafa áhrif á viðskipti í Kína til langs tíma.