Hjólastóll
Hjólastóll
Flutningur á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar og óvissa um fjármögnun málaflokksins tefur þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar

Þegar fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna ársins 2011 var samþykkt 14. desember 2010 var ekki búið að staðfesta flutning á málaflokknum til sveitarfélaga af hálfu Alþingis. Þá lá heldur ekki fyrir heildstæð tekju og útgjaldaáætlun með nákvæmri skiptingu á milli sveitarfélaga og því var alls óvíst hvernig fjármögnun yrði háttað á árinu 2011. Fullbúin útgjaldaáætlun varðandi málaflokkinn liggur nú fyrir, en ennþá er unnið að samkomulagi um fjármögnun.

Vafi um fjármögnun

Innanríkisráðuneytinu var tilkynnt 21. janúar sl. að ekki yrði unnt að afgreiða þriggja ára áætlun vegna óvissu um fjármögnun þar sem útgjaldaáætlun vegna málefna fatlaðra væri ekki tilbúin af hálfu ríkisins og að ekki lægi fyrir staðfesting á því að ríkið myndi tryggja fulla fjármögnun verkefnisins. Samkvæmt gildandi sveitarstjórnarlögum og samþykktum borgarinnar er ekki heimilt að stofna til útgjalda nema að þau séu fjármögnuð að fullu. Sú óvissa sem Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir varðandi útgjöld vegna málaflokks fatlaðra kemur því í veg fyrir að hægt sé að endurskoða og ljúka þriggja ára fjárhagsáætlun. Gert er ráð fyrir því að áætlunin verði tilbúin í september.

Munar 177 milljónum

Í maí áttu borgarstjóri, formaður borgarráðs og embættismenn fundi með fjármálaráðherra, innanríkisráðherra og embættismönnum um fjármögnunarvandann sem lýsir sér annars vegar í því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga áætlar 3.117 milljónum króna í framlög til Reykjavíkurborgar vegna ársins 2011. Er það 177 milljónum króna lægri fjárhæð en Reykjavíkurborg áætlar í útgjöld til málefna fatlaðra. Að auki áformar Jöfnunarsjóður að greiða aðeins 11/12 hluta af reiknuðu framlagi sínu innan tekjuársins. Það þýðir að borgarsjóð vantar ekki aðeins 177 milljónir króna til að fjármagna þennan mikilvæga málaflokk heldur 438 milljónir króna til að ná tekjujöfnuði innan ársins.