Nokkur óvissa ríkir um ýmsar þær forsendur sem áhrif hafa á niðurstöðu skuldaleiðréttingarinnar ríkisstjórnarinnar. Eins og kunnugt er kynntu forystumenn ríkisstjórnarflokkanna frumvörp um aðgerðirnar á blaðamannafundi í gær.

Í greinargerð skrifstofu opinberra fjármála hjá fjármála- og efnahagsráðuneytis sem fylgir með frumvarpinu segir að óvíst sé hve margir munu leita eftir niðurfærslu lána, auk þess sem frádráttarliðir, þ.e. áður fengnar afskriftir og niðurfellingar, geti haft umtalsverð áhrif á leiðréttingarfjárhæðir. Athugun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á gögnum bendi til þess að nokkur óvissa sé fyrir hendi um forsendur útreikninga og lítils háttar breytileiki í lykilstærðum geti haft umtalsverð áhrif.

„Endurmat á þessum forsendum gefur til kynna að vera megi að aðlaga þurfi viðmiðanir fyrir niðurfærslunni þegar betri upplýsingar liggja fyrir úr umsóknum lántakenda ef kostnaður við þennan þátt aðgerðarinnar á að geta haldist innan þeirra marka sem gengið hefur verið út frá, þ.e. að allt að 80 milljarða króna verði varið til niðurfærslunnar á tímabilinu,“ segir í greinargerðinni

Þá segir að ákvæði frumvarpsins geri ráð fyrir slíkri aðlögun í reglugerð sem ráðherra setur með tilltii til þátttöku í aðgerðinni, dreifingu þegar fenginna afskrifta og annarra slíkra atriða sem máli skipta fyrir ráðstöfun á fjárheimild í fjárlögum til lækkunar á húsnæðisskuldum heimila.