*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Erlent 10. ágúst 2020 15:18

Óvissa um framtíð nýsjálensks álvers

Rio Tinto hyggst að óbreyttu loka álverinu á næsta ári. Tilboð raforkusalans um framlengingu er þó enn í gildi.

Ritstjórn
Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Að óbreyttu mun álver Rio Tinto í Tiwai Point, Nýja Sjálandi, loka í ágúst á næsta ári. Tilboð raforkusalans Meridian til álversins um að álverinu verði lokað yfir allt að fjögur ár er þó enn á borðinu.

Rio Tinto tilkynnti um lokunina og uppsögn raforkusamnings við Meridian snemma í síðasta mánuði, og raforkusalinn segist í samtali við nýsjálenska miðilinn Herald ekki gera ráð fyrir öðru en að sú verði raunin.

Meridian sagðist þó hafa gert NZAS – dótturfélagi Rio Tinto – tilboð um framlengingu, sem enn sé í gildi, en að því hafi enn ekki verið gengið og því sé litið svo á að til standi að loka á næsta ári.

Í síðustu viku greindi Herald frá því að yfirmaður álframleiðslu Rio Tinto hafi sagt starfsfólki að endanlegrar ákvörðunar um lokunina væri að vænta á næstu 4-6 vikum.

Þrátt fyrir einarða opinbera afstöðu Meridian hafa greiningaraðilar bent á að takmarkanir á dreifikerfi raforku þar í landi geti orðið þess valdandi að raforkusalinn þurfi að tappa vatni af uppistöðulóni vatnsaflsvirkjunarinnar við South Island næstu árin, verði af lokuninni á næsta ári.

Sem kunnugt er viðraði Rio Tinto fyrr á árinu hugmyndir um lokun álversins í Straumsvík hér á landi, en félagið hefur sakað Landsvirkjun um að misnota markaðsráðandi stöðu sína og farið fram á lækkun raforkuverðs. Nær samhljóða tilkynningar voru gefnar út í febrúar um íhugun lokunar álveranna á Íslandi og í Nýja-Sjálandi.

Stikkorð: Rio Tinto Meridian