Þrátt fyrir að Giorgos Papandreou geti andað léttara eftir að hafa staðið af sér vantrauststillögu í gríska þinginu þýðir það ekki að núverandi ríkisstjórn geti reiknað með að halda velli og óvíst er hvort Papandreou verði áfram forsætisráðherra. Sigurinn vannst í reynd ekki fyrr en hann hafði lofað nýrri ríkisstjórn og skýrt frá því að hann myndi íhuga að draga sig í hlé. „Það er ekki úrslitaatriði fyrir mig að sitja áfram,“ sagði Giorgos Papandreou í ræðu sinni áður en atkvæðagreiðslan fór fram. Allar líkur eru þó taldar á því að stjórnarflokkurinn, PASOK, muni fara með völdin í bili þrátt fyrir að óvissa ríki um örlög Papandreous.

Samkvæmt heimildum Reuters er talið líklegt að fjármálaráðherrann, Evangelos Venizelos, muni fara fyrir nýrri samsteypustjórn en í ræðu í gær sagði hann að ný ríkisstjórn myndi væntanlega sitja fram í febrúar og að þá yrðu haldnar kosningar. Það myndi þá þýða að ríkisstjórnin fengi tíma til þess að fá samþykki þingsins fyrir björgunaraðstoð frá evruríkjunum og þannig geta forðað Grikklandi frá yfirvofandi gjaldþroti.