Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun 16 félaga innan Starfsgreinasambandsins er í uppnámi vegna niðurstöðu Félagsdóms, sem ógilti verkfallsboðun félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands í gær en til stóð að tæknimenn Ríkisútvarpsins hæfu verkfall í dag sem standa átti í fjóra daga. Morgunblaðið greinir frá.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hafi rætt sín á milli í gærkvöldi vegna málsins og muni hittast klukkan 13.00 í dag og fara yfir stöðuna.

Atkvæðagreiðsla Starfsgreinasambandsins nær til ríflega 10 þúsund manns og því mikil röskun ef stöðva þarf atkvæðagreiðsluna og hefja hana að nýju.

Í niðurstöðu Félagsdóms segir að ekkert standi í vegi fyrir að stéttarfélög framselji samningsumboð til landssambanda stéttarfélaga en slíkt framsal geti hins vegar lögum samkvæmt ekki náð til verkfallsréttar, enda sé hann bundinn við stéttarfélag samkvæmt lögum.