Forsendur ríkisstjórnarinnar um 3,% hagvöxt vegna fjárlagafrumvarpsins 2012 eru mjög bjartsýnar í ljósi þess að tekið er að hægja á hagvexti á heimsvísu sem aftur myndi hafa áhrif á útflutning íslenskra fyrirtækja og mögulega seinka erlendri fjárfestingu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Moody‘s um Ísland sem birt var í vikunni. Óvissa er því um hagvöxt til millilangs tíima.

Vaxtahorfur í hinu einsleita og litla íslenska hagkerfi velta einnig að verulegu leyti á hversu hratt tekst að aflétta gjaldeyrishöftunum. Hagvöxturinn gæti því orðið umtalsvert minni, segja sérfræðingar Moody‘s, en gert er ráð fyrir í núverandi áætlunum ríkisstjórnarinnar sem myndi þá þýða að grípa þyrfti til enn frekari aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum en koma fram í núverandi fjárlagafrumvarpi.