Óvissa ríkir um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja vegna forúrskurðar Samkeppniseftirlitsins, en í honum er ekki fallist á kaupin. Kjartan Magnússon, stjórnarformaður OR, segir að verði endanlegur úrskurður sá hinn sami virðist forsendur vera brostnar fyrir kaupunum. „Við viljum ekki gera eitthvað sem fer í bága við vilja Samkeppniseftirlitsins.“ Hann segir að fulltrúar stærstu eigenda HS hafi fundað í gær vegna málsins, þ.e.a.s. fulltrúar OR, Hafnarfjarðarbæjar, Geysis Green Energy og Reykjanesbæjar. „Við fórum yfir stöðuna og urðum sammála um það að við myndum skoða málið betur og leita lausna í því sem allir gætu sætt sig við,“ sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Eins og kunnugt er samþykkti meirihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar fyrir jól að selja OR allt að 95% hlutafjár Hafnarfjarðar í HS. Hafnarfjörður á nú um 15,4% hlut í HS. Í viljayfirlýsingu stærstu eigenda HS frá liðnu sumri er fjallað um mögulega sölu á hlut Hafnarfjarðar í HS til OR. í yfirlýsingunni segir að komi til takmarkana eða hindrana af hálfu samkeppnisyfirvalda eða dómstóla muni aðilar sameiginlega leita leiða varðandi eignarhald HS hf.svo sem aðfá nýja eignaðaraðila að félaginu. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir að umræddur samningur liggi fyrir og „við höfum haldið því fram að menn eigi að virða samninga og fara eftir þeim,“ segir hann. Lúðvík segir að Hafnarfjarðarbær og OR hafi sameiginlega óskað eftir því að fá frest til að svara forúrskurði Samkeppniseftirlitsins.

Lúðvík vonast til þess að niðurstaða fáist í málið allt á allra næstu dögum. Reykjanesbær á 34,7% hlut í HS, Geysir Green Energy 32%, OR 16,5% og aðrir minna.