Enn ríkir mikil óvissa um framtíð Icelandair Group sem felst m.a. í því hvort fjárfestar, þá aðallega lífeyrissjóðir sem fara samtals með tæplega helmingshlut, séu tilbúnir að til að leggja félaginu til nýtt hlutafé. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir tveimur vikum hefur félagið átt í viðræðum við stærstu hluthafa um að leggja til aukið hlutafé en sama dag greindi Icelandair frá því að stefnt væri á hlutafjárútboð á næstu misserum. Félagið hefur enn ekki boðað til hluthafafundar þar sem hlutafjárútboð yrði samþykkt né gefið út neitt út um hve mikil fjárþörfin er eða fyrirkomulag útboðsins. Það liggur hins vegar fyrir að félagið hefur ekki mikinn tíma til stefnu enda sagði forstjóri félagsins á starfsmannafundi í síðustu viku að félagið gæti lifað út maí miðað við lausafjárstöðu þess í byrjun marsmánaðar.

Í tilkynningu félagsins um væntanlegt hlutafjárútboð kom fram að það væri með þeim skilyrðum að gengið yrði frá langtíma kjarasamningum við flugstéttir. Miðar sú vinna aðallega að því að hægt verði að auka nýtingu starfsfólks og lækka þar með einingarkostnað. Nýting starfsfólks og þar með aukinn launakostnaður hefur valdið Icelandair töluverðum vandræðum síðustu ár en þegar spurt er hvort ábyrgðin liggi hjá Icelandair eða í kjarasamningum hafa flugfélagið og stéttarfélög áhafna vísað hvort á annað.

Í þessu samhengi má einnig benda á að samsetning leiðarkerfisins gerir félaginu erfiðara um vik að besta nýtingu áhafna þar sem þær fljúga í hefðbundnum mánuði bæði fram og til baka til Evrópu samdægurs en einnig lengri flug til Norður-Ameríku þar sem dveljast þarf yfir nótt. Á sama tíma hafa félög með svipað leiðakerfi á borð við Norwegian haft þann háttinn á að ákveðinn hópur áhafna flýgur eingöngu styttri vegalegndir á meðan annar hópur flýgur eingöngu lengri flug.

Hvað varðar nýja fjárfestingu í félaginu ríkir einnig töluverð óvissa um samninga við Boeing um kaup á sjö Boeing 737 Max vélum sem hafa ekki enn verið smíðaðar. Eru væntingar um að félagið geti losnað undan þeim samningum en sem dæmi hefur fjármálastjóri Norwegian látið hafa það eftir sér að félagið hafi rétt til að falla frá sínum kaupum þar sem afhending hafi dregist um meira en 12 mánuði. Þá vofir einnig yfir óvissa um bætur vegna áhrifa kyrrsetningar Max vélanna á rekstur félagsins á síðasta ári en áhrif hennar voru um 100 milljónir dollara á rekstrarhagnað síðasta árs. Félagið hefur tvisvar gert samkomulag við Boeing um bætur en mikil leynd ríkir um hve miklar þær hafa verið.

Komi til þess að hlutafjáraukning félagsins gangi ekki eftir liggur fyrir að félagið mun þurfa að leita á náðir ríkisins um beina aðstoð eigi rekstur þess ekki að stöðvast. Samkvæmt heimildum blaðsins eru nær engar líkur á því að ríkið muni ekki veita félaginu aðstoð verði það nauðsynlegt enda er það talið kerfislega mikilvægt. Með hvaða hætti sú aðstoð yrði liggur þó ekki fyrir en þó hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagt að hluthafar muni þurfa að taka á sig a.m.k. töluverða skerðingu. Lán með ríkisábyrgð, víkjandi lán og eiginfjárframlag eru dæmi um hugmyndir sem hafa verið viðraðar en hvaða leið verður farin fari svo að ríkið þurfi að grípa inn í verður tíminn einn að leiða í ljós.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .